Enski boltinn

Mourinho ánægður með sigurgöngu Chelsea

Jose Mourinho hafði ástæðu til að fagna í dag.
Jose Mourinho hafði ástæðu til að fagna í dag. MYND/Getty

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, er afar ánægður með hvernig lærisveinar sínir eru að spila um þessar mundir en með sigrinum á Tottenham í dag heldur liðið áfram að pressa á Man. Utd. í toppbaráttu úrvalsdeildarinnar. Mourinho segir Man. Utd. heppið að hafa sleppt við heimsókn til Stamford Bridge um næstu helgi.

“Ég er mjög ánægður því það er orðið langt síðan við töpuðum. Við höfum náð að vinna sjö eða átta leiki í röð í deildinni. Við spiluðum vel en Tottenham veitti okkur harða keppni,” sagði Mourinho.

Alex Ferguson, stjóri Man. Utd., lét hafa eftir sér í gær að Chelsea væri heppið með að mæta Tottenham á þessum tímapunkti, en aðeins eru liðnir tæpir tveir sólarhringar síðan liðið lék gegn Sevilla í Evrópukeppninni. Mourinho svaraði þessum fullyrðingum fullum hálsi í samtali við fjölmiðla eftir leikinn í dag.

“Það er Man. Utd. sem er heppið með leikjaniðurröðunina. Þeir áttu að koma á Stamford Bridge um næstu helgi en sluppu við það,” sagði Mourinho og átti þá við þá ákvörðun ensku úrvalsdeildarinnar að fresta leik liðanna þar til í byrjun maí vegna þess að bæði lið eru komin í undanúrslit ensku bikarkeppninnar. “Það er í þeim leik sem við getum stjórnað því hvernig lokasprettur deildarinnar verður,” sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×