Erlent

Norðmenn veita 60 milljarða í þróunaraðstoð

MYND/Hari

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, lofaði í dag einum milljarði dollara, jafnvirði um 60 milljarða króna, í stuðning til mæðra og barna í þróunarlöndunum á næsta áratug. Fjármunirnir bætast við þann milljarð dollara sem ríkisstjórn Noregs hafði lofað til bólusetningar gegn sjúkdómum í fátækustu löndum heims á næstu átta árum.

Stoltenberg er eins og fjölmargir leiðtogar staddur í New York þessa dagana og á ráðstefnu á vegum samtaka Bills Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, boðaði hann átak til þess að bjarga lífu milljóna barna og kvenna í heiminum.

Fram kemur á vef norska ríkisútvarpsins að fjármununum verði varið í gegnum Alþjóðabankann og aðrar stofnanir. Vilja norsk stjórnvöld að peningarnir fari meðal annars í uppbyggingu heilsugæslu í þróunarlöndum, til að mynda verði konum borgað fyrir eiga börn á sjúkrahúsum. Með því telja norsk stjórnvöld að koma megi í veg fyrir barnadauða og að konur látist við barnsburð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×