Erlent

Banna notkun orðsins „kórónuveira“ í Túrkmenistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Gurbanguly Berdymukhamedov, einræðisráðherra Túrkmenistan.
Gurbanguly Berdymukhamedov, einræðisráðherra Túrkmenistan. Getty/Mikhail Svetlov

Yfirvöld mið-Asíuríkisins einangraða, Túrkmenistan, hafa bannað notkun orðsins kórónuveira. Á sama tíma og einræðisstjórn landsins segir að enginn íbúi Túrkmenistan hafi smitast af veirunni gætu íbúar verið fangelsaðir fyrir að nefna hana eða ganga með andlitsgrímu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum Blaðamenn án landamæra (RSF) og vitna samtökin í Turkmenistan Chronicle, sem ku vera einn mjög fárra sjálfstæðra miðla í einræðisríkinu.

Gurbanguly Berdymukhamedov, hinn skrautlegi einræðisherra Túrkmenistan, hefur látið fjarlægja orðið úr bæklingum sem búið var að dreifa víða um landið. Óeinkennisklæddir lögregluþjónar eru einnig sagðir hafa verið sendir út meðal fólks til að handataka íbúa sem bera andlitsgrímur eða tala um veiruna.

Túrkmenistan deilir löngum landamærum með Íran, sem er meðal þeirra ríkja sem hafa orðið verst út í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Jeanne Cavelier, framkvæmdastýra RSF, segir þessa afneitun upplýsinga ógna lífi almennings í Túrkmenistan og hvetur hún alþjóðasamfélagið til að bregðast við og refsa einræðisherranum.

Túrkmenistan er talið eitt einangraðasta ríki heims og lendir iðulega neðst á listum sem snúa að frelsi fjölmiðla og íbúa. Eins og til dæmis á lista RSF yfir frelsi fjölmiðla.

Hér að neðan má sjá kostulega umfjöllun John Oliver um Berdymukhamedov frá því í fyrra þegar hann gerði stólpagrín að einræðisherranum. Meðal annars fyrir undarlegt dálæti hans á hestum, rappi og heimsmetum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.