Íslenski boltinn

Hleypur 310 km fyrir Þór/KA og Hamrana: „Alveg nógu þrjóskur til þess“

Sindri Sverrisson skrifar
Þór/KA á dyggan bakhjarl í Haraldi Ingólfssyni.
Þór/KA á dyggan bakhjarl í Haraldi Ingólfssyni. VÍSIIR/BÁRA

Það er leitun að dyggari stuðningsmanni en Haraldi Ingólfssyni sem ætlar að hlaupa yfir 300 kílómetra í apríl til styrktar liðum Þórs/KA og Hamranna í fótbolta kvenna.

Haraldur hefur starfað í kringum liðin og vildi leggja hönd á plóg í fjáröflunarstarfi þeirra. Þess vegna leggur hann af stað kl. 9.30 á Þórsvelli á morgun og hleypur fyrstu kílómetrana af þeim 310 sem hann ætlar að fara í apríl.

„Íþróttafólk er sífellt að vinna og selja í alls konar fjáröflunum. Stelpurnar í Þór/KA og Hömrunum selja nú ýmislegt, meðal annars klósettpappír sem gæti nú verið vinsæll þessa dagana. Um miðjan febrúar voru þær að selja sokka frá Smart Socks og þá kom komment frá Stefáni Frey í stjórn Þórs/KA um hvort ég ætlaði ekki að hlaupa einn kílómetra fyrir hvert sokkapar sem sú söluhæsta myndi selja. Ef einhver myndi selja 15 pör myndi ég þá hlaupa 15 kílómetra. Ég náttúrulega svaraði án þess að hugsa og sagðist myndu hlaupa kílómetra fyrir hvert par sem þær seldu allar saman. Þetta gekk til 15. mars og þá voru kallaðar inn sölutölur. Þá voru komin 310 pör og þá var ekki annað að gera en að standa við það. Ég ætla því að hlaupa 310 kílómetra í apríl,“ sagði Haraldur í Sportinu í dag.

Haraldur kveðst búinn að bæta hlaupaformið síðustu daga en hann þarf að hlaupa rúmlega 10 kílómetra á dag að meðaltali. Hann stefnir hins vegar á að hlaupa frekar 12-14 kílómetra hverju sinni svo hann fái frídaga inn á milli:

„Ég næ að klára þetta. Ég er alveg nógu þrjóskur til þess. Það stóð nú ekki í smáa letrinu en ég á nú von á því að þetta verði ekki allt það sem að vanir hlauparar myndu kalla „hlaup“. Ég kannski frekar skokka og svo kemur kannski einn og einn 400 metra hringur þar sem ég geng rösklega rétt til að ná andanum.“

Klippa: Haraldur Ingólfsson ætlar að hlaupa rúma 300km

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×