Erlent

Innsigluðu þjóðstjórn í Ísrael

Kjartan Kjartansson skrifar
Kosningaauglýsing Blá og hvíta flokksins sem sýnir Gantz (t.v.) og Netanjahú (t.h.). Þeir vinna nú saman í þjóðstjórn næstu þrjú árin og eru sagðir ætla að skiptast á forsætisráðherrastólnum.
Kosningaauglýsing Blá og hvíta flokksins sem sýnir Gantz (t.v.) og Netanjahú (t.h.). Þeir vinna nú saman í þjóðstjórn næstu þrjú árin og eru sagðir ætla að skiptast á forsætisráðherrastólnum. AP/Oded Balilty

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Benny Gantz, leiðtogi sstjórnarandstöðuflokksins Blá og hvíta flokksins, skrifuðu undir stjórnarsáttmála þjóðstjórnar í dag. Með samkomulaginu er bundinn endir á árslanga stjórnarkeppu þar sem þrennar þingkosningar hafa verið haldanar.

Líkúd-flokkur Netanjahú og Blái og hvíti flokkurinn sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag um að þeir hefðu skrifað undir stjórnarsáttmála. Flokkarnir munu skipta með sér forsætisráðherrastólnum og byrjar Netanjahú á að gegna embættinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Pattstaða hefur ríkt í ísraelskum stjórnmálum undanfarið ár. Þingkosningar voru haldnar apríl og september í fyrra og aftur í mars á þessu ári en enginn flokkur hlaut afgerandi meirihluta í þeim.

Spillingarmál vofir enn yfir Netanjahú forsætisráðherra og átti það að vera tekið fyrir hjá dómstólum á næstunni. Málinu var hins vegar frestað vegna kórónuveiruheimsfaraldursins sem nú geisar. Netanjahú er ákærður fyrir trúnaðarbrot í starfi, mútuþægni og fjársvik. Hann hefur neitað allri sök.

Dómsmálið gegn Netanjahú er sagt hafa tafið fyrir stjórnarmyndunarviðræðunum. Óttast var um tíma að boða þyrfti til fjórðu þingkosninganna á rétt rúmu ári.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×