Erlent

Fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um að leyfa Pútín að sitja áfram

Kjartan Kjartansson skrifar
Pútín tilkynnti um ákvörðunina um að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar í dag.
Pútín tilkynnti um ákvörðunina um að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar í dag. AP/Alexei Druzhinin/Spútník

Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur frestað þjóðaratkvæðagreiðslu sem átti að halda um stjórnarskrárbreytingum sem leyfðu honum að sitja áfram sem forseti í næsta mánuði vegna kórónuveirufaraldursins. Tilkynnti hann einnig um að landsmönnum yrði haldið heima í næstu viku til að hægja á útbreiðslu faraldursins.

Þjóðaratkvæðagreiðslan átti að fara fram 22. apríl en rússneska þingið og stjórnlagadómstóllinn hefur þegar lagt blessun sína yfir stjórnarskrárbreytingarnar. Sú veigamesta er að Pútín gæti boðið sig fram til forseta í tvö kjörtímabil til viðbótar eftir að núverandi kjörtímabili hans lýkur árið 2024. Núverandi stjórnarskrá bannar honum að bjóða sig fram aftur.

„Við sjáum hversu alvarleg þróun kórónuveirufaraldursins í heiminum er, í mörgum löndum fjölgar smitum áfram, hagkerfi alls heimsins er í hættu,“ sagði Pútín í sjónvarpsávarpi í dag.

Forsetinn sagði ekki hvenær þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram, aðeins að hann og ríkisstjórnin myndi hlusta á ráðleggingar lýðheilsusérfræðinga og meta stöðuna síðar.

Í ávarpinu sagði Pútín einnig að landsmenn myndu ekki vinna í næstu viku til að hægja á útbreiðslu veirunnar. Fólk fengi greitt og lykilþjónusta yrði enn starfandi.

Alls hafa 658 tilfelli COVID-19 verið staðfest í Rússland en yfirvöld segja að enginn hafi enn látist, að sögn breska ríkisútvarpins BBC. Í dag voru 163 ný tilfelli staðfest. Pútín sagði í ávarpinu að nær ómögulegt væri að koma algerlega í veg fyrir útbreiðslu veirunnar í Rússlandi vegna þess hversu stórt landið er.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×