Innlent

Þakklát öllum á Íslandi fyrir að leggja sitt af mörkum í baráttunni við veiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra. Stöð 2/Baldur Hrafnkell

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lýsir yfir miklu þakklæti í garð allra á Íslandi. Hún er þakklát fyrir þá viðleitni Íslendinga til að laga hegðun sína að þeim tilmælum og fyrirmælum sem stjórnvöld hafa gefið út í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Mig langar að nota þetta tækifæri núna, þegar við erum enn þá að herða á og í raun og veru enn þá að þrengja meira að alls konar starfsemi í samfélaginu, að lýsa því mikla þakklæti sem ég ber í brjósti gagnvart öllum á Íslandi,“ sagði Svandís í samtali við fréttastofu í kvöld.

Hún segir jafnframt ljóst að allir sem eru að breyta lífi sínu á einhvern hátt séu að leggja sitt af mörkum.

„Allt frá heimilishaldinu og yfir í það hvernig fólk er að vinna með kennslu og heilbrigðisþjónustu. Það strætóbílstjórar, það eru þeir sem eru að reka veitingaþjónustu, það er ungt fólk og gamalt fólk.“

Í dag var tilkynnt að ráðherrann hefði, eftir ráðleggingum sóttvarnalæknis, ákveðið að herða enn frekar samkomubannið sem sett var á 13. mars síðastliðinn. Þá var ákveðið að takmarka allar samkomur við 100 manns eða færri. Hámarksfjöldi einstaklinga hefur nú verið lækkaður umtalsvert, eða niður í 20. Bannið gildir að minnsta kosti til 15. apríl, en mögulegt er að það verði hert frekar. Ekkert liggur þó fyrir í þeim efnum, eins og sakir standa.

„Allir eru að breyta sínum venjum frá degi til dags til þess að fara að þessum ráðum sóttvarnalæknis og stefna að því að ná að sigrast á þessari veiru,“ segir Svandís að lokum.

Á vefsíðunni covid.is, sem haldið er úti af Almannavörnum og embætti landlæknis, má nálgast allar helstu upplýsingar um hvaða þýðingu samkomubannið hefur og hvaða reglur gilda í tengslum við bannið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×