Innlent

Á fjórða tug starfsmanna bráðadeildar í sóttkví eða veikir

Kjartan Kjartansson og Erla Björg Gunnarsdóttir skrifa

Um 10-15% starfsmanna bráðadeildar Landspítalans eru nú veikir eða í sóttkví vegna kórónuveirufaraldursins. Yfirlæknir bráðalækninga segir að þrátt fyrir það hafi tekist að halda fullri starfsemi á deildinni.

Fleiri en tvö hundruð starfsmenn Landspítalans eru nú í sóttkví og tuttugu og fimm hafa greinst með veiruna. Á bráðadeild eru 33 starfsmenn annað hvort veikir eða í sóttkví. Að sögn Jóns Magnúsar Kristjánssonar, yfirlæknis bráðalækninga á Landspítalanum, hafa fjarvistirnar haft töluverð áhrif á starfsemina.

„Þetta hefur áhrif en aðrir starfsmenn stíga inn og taka upp þær vaktir sem á þarf að halda þannig að við höfum getað haldið fullri starfsemi,“ sagði Jón Magnús í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Spálíkön sem almannavarnir hafa stuðst við benda til þess að toppi faraldursins gæti verið náð eftir um þrjár vikur. Þá verði álag jafnframt mest á heilbrigðisþjónustuna. Jón Magnús segir að hluti þeirra starfsmanna bráðadeildarinnar verði kominn aftur til starfa þá en þó ekki allir.

Alls hafa nú rúmlega fjögur hundruð manns greinst smitaðir af kórónuveirunni á Íslandi og eru um 4.000 manns í sóttkví. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í dag að faraldurinn væri enn í vexti en þó ekki endilega eins miklum og óttast hafði verið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×