Innlent

Á­hyggju­efni að fólk sé farið að slaka á sam­komu­banni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Það er áhyggjuefni að strax sé farið að bera á því fólk sé farið að slaka í samkomubanninu, það er eitthvað sem hafi verið öflugt framan af þegar bannið tók gildi síðastliðinn mánudag sé nú ekki eins gott.

Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag.

Þar var hann spurður að því hvernig fylgst væri með því hvort verið væri að fara eftir samkomubanninu. Nefndi fréttamaður á fundinum að hann hefði farið í verslun í gær þar sem ekki var talið inn í búðina og aðeins einn dunkur með sótthreinsandi efni fyrir viðskiptavini sjáanlegur.

„Við fylgjumst fyrst og fremst með því í gegnum svona ábendingar eins og þessa og reynum að koma á framfæri við viðkomandi upplýsingum og hvetja menn til þess að vera ábyrgir og sýna þátttöku í þessu. En þetta er auðvitað áhyggjuefni finnst okkur aðeins núna. Við erum ekki nema á fimmta degi í þessu samkomubanni og við erum strax að sjá fleiri dæmi um það að menn séu eitthvað að slaka á í því sem menn voru mjög öflugir í á mánudaginn. Það er áhyggjuefni,“ sagði Víðir.

Ekki blanda saman hópum utan skóla eða vinnu

Þá var spurt út í það hvort að börn mættu leika sér saman úti. Víðir svaraði því til að í dag yrði skerpt á reglum varðandi þetta.

Það væri þá þannig að börn sem ekki væru í sama hóp í skólanum ættu heldur ekki að blandast utan skólatíma. Þannig væri í lagi að leika við bekkjarfélagana en ekki aðra skólafélaga eða krakka úr öðrum skólum.

Það sama gilti um fullorðna sem ynnu á vinnustað sem búið væri að skipta upp í svæði. Fólk sem væri ekki að vinna á sama svæði ætti ekki að blandast heldur utan vinnutíma, til dæmis ekki vera að fara á kaffihús saman eftir vinnu eða út að borða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×