Erlent

Fjórir úr sömu fjölskyldunni dánir og þrír veikir

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn undirbúa sýnatökur í New Jersey.
Heilbrigðisstarfsmenn undirbúa sýnatökur í New Jersey. AP/Seth Wenig

Fjórir meðlimir sömu fjölskyldunnar í New Jersey í Bandaríkjunum eru dánir vegna Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur. Þar að auki eru þrír til viðbótar veikir og þar af tveir alvarlega. Veikindin komu upp eftir matarboð fjölskyldunnar og var það sótt af fyrsta manninum sem dó vegna veirunnar í New Jersey.

Hin 73 ára gamla Grace Fusco er dáin auk þriggja fullorðinna barna hennar. Nítján meðlimir fjölskyldunnar bíða nú eftir niðurstöðum úr rannsóknum.

Roseann Paradiso Fodera, einn meðlimur fjölskyldunnar ræddi við blaðamenn CNN í gær og sagði að um harmleik væri að ræða. Allir hefðu miklar áhyggjum af þeim sem væru smitaðir og hinum sem bíða í von og óvon eftir niðurstöðum úr skimunum.

„Það bjóst enginn við því að ellefu barna fjölskylda myndi stráfalla á þennan hátt,“ sagði Fodera.

Skimunin fór fram á laugardaginn og í gærkvöldi voru þau enn að bíða eftir niðurstöðum. Fjölskyldan kvartar yfir því að frægir aðilar og íþróttamenn virðist hafa forgang í rannsóknum.

Samkvæmt tölum John Hopkins háskólans er búið að staðfesta rúmlega fjórtán þúsund tilfelli í Bandaríkjunum og 205 dauðsföll. Þar af einungis níu í New Jersey, þannig að tæplega helmingur þeirra sem hafa dáið þar koma úr einni fjölskyldu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×