Íslenski boltinn

Veigar Páll hefur oft hitt hundinn Veigar Pál: Hann er keimlíkur mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Karl Finsen með hundinn sinn sem fékk nafnið Veigar Páll.
Ólafur Karl Finsen með hundinn sinn sem fékk nafnið Veigar Páll. Mynd/S2 Sport

Ólafur Karl Finsen skoraði bæði mörk Stjörnunnar þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á FH í Kaplakrika árið 2014.

Ólafur Karl skoraði sigurmarkið í uppbótatíma en þá voru Stjörnumenn orðnir tíu á móti ellefu eftir að Veigar Páll Gunnarsson, fyrirliði Stjörnunnar, var rekinn af velli.

Ríkharð Guðnason heimsótti Ólaf Karl í gær þegar Sportið í kvöld á Stöð 2 Sport tók fyrir þennan fræga úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn fyrir sex árum síðan. Ríkharð komst þá að því að það er Veigar Páll á heimili Ólafs Karls Finsen.

„Þú lítur greinilega upp til Veigars Páls því að hér er dýr inn á heimilinu sem heitir Veigar Páll. Getur þú sagt mér aðeins hvernig dýr þetta er,“ spurði Ríkharð Guðnason.

„Þetta er hundurinn minn Veigar Páll“ sagði Ólafur Karl og kallaði síðan á Veigar Páll sem kom til hans. Enn af hverju þetta nafn?

„Ég veit það ekki. Kannski hvernig hann er byggður og vaxinn. Þeir eru svona stuttir, kraftmiklir og skemmtilegir,“ sagði Ólafur Karl.

„Ég veit ekki alveg hvernig þetta kom til. Mér finnst leiðinlegt þegar hundar eru skírðir snati eða eitthvað. Mig langað til að skíra hann eitthvað almennilegt og fannst Veigar Páll við hæfi. Ég sé ekki eftir því,“ sagði Ólafur Karl.

Ríkharður var með Veigar Pál í settinu og spurði hann út í nafna sinn. „Ég er búinn að hitta þennan hund, hef ekki fengið að passa hann enn þá en ég hef hitt hann oft og hann er keimlíkur mér“ sagði Veigar Páll í léttum tón.

Það má sjá innslagið með hundinum Veigari Pál hér fyrir neðan.

Klippa: Ólafur Karl og hundurinn Veigar Páll



Fleiri fréttir

Sjá meira


×