Íslenski boltinn

Veigar Páll um rauða spjaldið gegn FH: „Aldrei liðið jafn illa á ævinni“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Veigar Páll í leik Stjörnunnar og Inter á San Siro sumarið 2014.
Veigar Páll í leik Stjörnunnar og Inter á San Siro sumarið 2014. vísir/getty

Veigar Páll Gunnarsson segir að rauða spjaldið sem hann fékk í frægum leik FH og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn haustið 2014 hafi verið versta augnablikið á ferlinum og það sem hann skammast sín mest fyrir.

Veigar Páll var fyrirliði Stjörnunnar í leiknum í Kaplakrika sem var í lokaumferð Pepsi-deildarinnar. Bæði lið voru ósigruð fyrir leikinn en FH-ingum dugði jafntefli til að verða Íslandsmeistarar á meðan Stjörnumenn þurftu að vinna.

Á 59. mínútu sló Veigar Páll til Hólmars Arnar Rúnarssonar og Kristinn Jakobsson, sem dæmdi þarna sinn síðasta leik á ferlinum, rak hann af velli. Fimm mínútum síðar jafnaði Steven Lennon fyrir FH í 1-1.

„Hólmar sagði fullt af ljótum hlutum við mig og hann náði að komast í mínar fínustu. Vel gert hjá honum. En þetta er augnablik sem ég skammast mín fyrir,“ sagði Veigar Páll í Sportinu í kvöld á Stöð 2 Sport í gær.

„Ef þetta hefði farið á hinn veginn og FH hefði unnið hefði ég pottþétt flutt rakleiðis aftur til Noregs. Ef þú sérð myndina af mér í göngunum, mér hefur aldrei liðið jafn illa á ævinni. Ég tala nú ekki um þegar FH jafnaði og við vorum ekki búnir að geta mikið í leiknum.“

Veigar Páll beið með að standa upp eftir að hafa slegið til Hólmars. Hann vissi þó hvaða refsing beið hans.

„Ég vissi nákvæmlega hvað ég hafði gert af mér. Ég vissi að ég myndi fá rautt spjald. Ég lá í grasinu og var að drepast í löppinni eftir að Kassim [Doumbia] tók eina hressilega beint í legginn á mér. Ég lá í grasinu og var að reyna að átta mig á þessu og hvernig ég ætti að snúa mér í þessu,“ sagði Veigar Páll.

Innslagið úr Sportinu í kvöld má sjá hér fyrir neðan. Þar er einnig rætt við Kristinn um rauða spjaldið sem hann gaf Veigari Páli.

Klippa: Sportið í kvöld: Veigar Páll um rauða spjaldið gegn FH



Fleiri fréttir

Sjá meira


×