Erlent

Danadrottning: Kórónuveiran er vágestur

Kjartan Kjartansson skrifar
Margrét Þórhildur Danadrottning. Myndin er úr safni.
Margrét Þórhildur Danadrottning. Myndin er úr safni. Vísir/EPA

Margrét Þórhildur Danadrottning hvatti landa sína til þess að taka aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins alvarlega í sögulegu sjónvarpsávarpi í kvöld. Varaði hún við því að enn væru ýmsir sem hegðuðu sér af hugsunar- og tillitsleysi.

Áður en ávarp drottningar hófst tilkynnti ríkisstjórn Mette Frederiksen forsætisráðherra um enn strangari aðgerðir til að bregðast við faraldrinum. Samkomur tíu manna og fleiri eru bannaðar og loka þarf alls kyns fyrirtækjum og opinberum stöðum eins og veitingastöðum, verslunarmiðstöðvum og íþróttahúsum til 30. mars.

„Ég er með ákall til allra: kórónuveiran er vágestur og hún gengur hart fram. Smitin halda áfram. Löng og ógnvekjandi keðja. Í þeirri keðju mun fólk deyja. Barn gæti misst ömmu sína. Kona mann sinn,“ sagði drottningin í fyrsta slíka ávarpi dansks þjóðhöfðingja frá því að afi Margrétar talaði beint til þjóðarinnar við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Biðlaði hún til Dana að hugsa vel um eigin hegðun á tímum faraldursins.

„Það er keðjan sem við verðum að slíta og sem við getum slitið. Þetta getur aðeins gerst ef við hugsum öll um það,“ sagði drottningin sem ítrekaði tilmæli yfirvalda um að fólk þvoi sér um hendur, forðast návígi við aðra og haldi sig heima við.

Varaði drottningin við því að enn væru ýmsir sem tækju vána ekki alvarlega.

„Maður sér ennþá hópa af öllum aldri standa of þétt saman, það er hugsunarleysi og tillitsleysi,“ sagði Margrét.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×