Innlent

Telur að sam­starf við Pfizer geti svarað mikil­vægum spurningum fyrir heims­byggðina

Tryggvi Páll Tryggvason og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er hóflega bjartsýnn á að það takist að koma á samstarfi við Pfizer um bólusetningu þjóðarinnar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er hóflega bjartsýnn á að það takist að koma á samstarfi við Pfizer um bólusetningu þjóðarinnar. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason telur að mögulegt rannsóknarsamstarf við bandaríska lyfjaframleiðandann Pfizer um að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar sem fyrst, geti svarað mikilvægum spurningum um bóluefnið fyrir heimsbyggðina alla.

Greint var frá því yfir hátíðisdagana að Þórólfur og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hafi báðir rætt það við Pfizer að fá hingað til lands fleiri skammta af bóluefni fyrirtækisins gegn Covid-19 fyrr en reiknað er með.

Sagðist Þórólfur hafa viðrað þá hugmynd að Ísland verði rannsóknarsetur fyrir fjórða fasa rannsókn á bóluefninu. Kári og Þórólfur munu á næstunni funda með Pfizer til þess að athuga hvort grundvöllur sé fyrir slíku samstarfi.

Vilja svara ósvöruðum spurningum

Fyrstu tíu þúsund skammtar bóluefnis Pfizer bárust hingað til lands í dag. Eftir afhendingu bóluefnisins var Þórólfur spurður út í þetta mögulega samstarf.

„Við erum að skoða alla möguleika og reyna þannig að efla rannsóknir og svara mörgum spurningum sem eru ósvarað með bólusetningar,“ svaraði Þórólfur en viðtal fréttastofu við hann má sjá hér í spilaranum að neðan.

„Hvernig verður virknin á bóluefninu á hina mismunandi stofna veirunnar, hvernig náum við hjarðónæmi, hvað gerist ef við slökum vel á eftir að hafa bólusett marga og svo framvegis. Þetta eru mjög mikilvægar spurningum fyrir okkur og mjög mikilvægar spurningar og svör fyrir aðrar þjóðir líka,“ sagði Þórólfur.

Hóflega bjartsýnn

Viðræðurnar eru skammt á veg komnnar.

„Við höldum að við getum svarað þessum spurningum hér á Íslandi og þess vegna höfum við fært þetta í tal við Pfizer en þetta er á algjörum byrjunarreit,“ sagði Þórólfur.

Sagði Þórólfur að á dagskrá í vikunni væru fundir með Pfizer til þess að svara fyrstu spurningunum sem upp koma varðandi mögulegt samstarf.

Ertu bjartsýnn?

„Bara hóflega eins og ég er búinn að vera allan tímann. Við tökum bara eitt skref í einu og sjáum hverju það skilar. Svo tökum við annað skref.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×