Erlent

Alræmdi njósnarinn George Blake er látinn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
George Blake er látinn. 
George Blake er látinn.  EPA/SERGEI CHIRIKOV

George Blake, fyrrum njósnari bresku leyniþjónustunnar MI6 og einn alræmdasti „tvöfaldi útsendarinn“ á tímum Kalda stríðsins er látinn, 98 ára að aldri. Á yfir níu ára tímabili starfaði Blake sem njósnari fyrir Sovétríkin en hann afhenti upplýsingar sem leiddu til þess að upp komst um að minnsta kosti fjörutíu útsendara MI6 í Austur Evrópu.

Blake var fangelsaður í London árið 1960 en hann slapp og flúði til Rússlands árið 1966. Rússneska utanríkisleyniþjónustan segir Blake hafa „elskað landið mjög mikið.“ Blake var fæddur sem George Behar þann 11. nóvember 1922 í hollensku borginni Rotterdam. Faðir hans var spænskur gyðingur sem barðist með breska hernum í fyrri heimsstyrjöldinni og öðlaðist síðar breskan ríkisborgararétt að því er fram kemur í frétt BBC.

Sjálfur starfaði Blake fyrir Hollendinga í seinni heimsstyrjöldinni áður en hann flúði til Gíbraltar sem stjórnað er frá Bretlandi. Í ljósi bakgrunns hans var hann beðinn um að ganga til liðs við leyniþjónustuna.

Í viðtali við BBC árið 1990 kvaðst Blake hafa svikið að minnsta kosti fimm hundruð vestræna útsendara en hann neitaði ásökunum um að 42 þeirra hafi týnt lífi sínu sem rekja megi til þess að hann hafi sagt til þeirra.

Það var síðan pólski leyniþjónustumaðurinn Michael Goleniewski sem kom upp um Blake sem þá var kallaður til London þar sem hann var handtekinn. Fyrir dómi játaði hann sök fyrir fimm sakarefni fyrir að hafa veitt Sovétmönnum upplýsingar. Tvöföld starfsemi og svik Blake ollu miklum skaða innan bresku leyniþjónustunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×