Trump segist hafa neitað að skrifa undir lögin þar sem hann sé mótfallinn því að í þeim felist takmarkanir á því hversu marga hermenn verði hægt að draga til baka frá Evrópu. Þá er hann einnig ósáttur við að í lögunum er veitt heimild til þess að fjarlægja nöfn leiðtoga Suðurríkjanna sálugu af herstöðvum.
Í morgun var greint frá því að Trump hafi krafist breytinga ájörgunarpakka vegna kórónuveirufaraldursins sem þingmenn náðu loks saman um í vikunni, án þess þó að hafa beitt neitunarvaldinu sjálfu.
Þingið getur hunsað neitunina með nægum stuðningi
Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna í báðum deildum þingsins höfðu samþykkt varnarmálafjárlögin. Þingdeildirnar báðar geta hafnað neitunarvaldi forsetans ef tveir af hverjum þremur þingmönnum beggja deilda samþykkja það. Frumvarpið verður þá að lögum.
Samflokksmaður Trump, öldungardeildarþingmaðurinn Jim Inhofe, formaður hermálanefndar deildarinnar, gagnrýndi Trump fyrir að hafa neitað að skrifa undir frumvarpið. Sambærileg frumvörp, sem samþykkja þarf ár hvert til þess að fjármagna varnarmál Bandaríkjanna, hafi verið samþykkt hvert einasta ár undanfarin 59 ár.
Demókratar í báðum deildum segjast hlakka til þess að geta hafnað neitun forsetans, en spekingar ytra hafa velt því upp hvort að Repúblikanar muni styðja slíka tillögu í jafn miklu mæli og þeir studdu frumvarpið sjálft.
Það styttist í annan endann á forsetatíð Trump en demókratinn Joe Biden mun taka við völdum þann 20. janúar næstkomandi.