Erlent

Segir Biden ætla að refsa Rússum fyrir tölvuárásina umfangsmiklu

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden tekur við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar.
Joe Biden tekur við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar. AP/Gerald Herbert

Þegar Joe Biden verður forseti Bandaríkjanna í næsta mánuði, mun hann refsa yfirvöldum Rússlands vegna gífurlega umfangsmikillar tölvuárásar sem Rússar eru taldir bera ábyrgð á. Ron Klain, starfsmannastjóri Bidens, segir að þeim sem beri ábyrgð á árásinni verði refsað.

Það verði ekki eingöngu gert með viðskiptaþvingunum og öðrum sambærilegum refsiaðgerðum heldur einnig með aðgerðum sem ætlað sé að draga úr getu Rússa til að gera tölvuárásir og jafnvel verði sambærilegum árásum beitt gegn þeim.

Þetta sagði Klain í sjónvarpsviðtali í gær.

Samkvæmt AP fréttaveitunni hafa sérfræðingar, þingmenn og embættismenn og þeirra á meðal Mike Pompeo, utanríkisráðherra, sagt að um mjög alvarlega árás sé að ræða og að spjótin beinist að yfirvöldum í Rússlandi.

Donald Trump, fráfarandi forseti, hefur þó haldið öðru fram. Um helgina sagði hann að yfirvöld í Kína hefðu mögulega framkvæmt töluvárásina. Hann sagði einnig að ekki væri um alvarlega árás að ræða, sem er þvert á það sem Netöryggisstofnun Bandaríkjanna hefur sagt.

Eins og tekið er fram í grein AP fréttaveitunnar hefur Trump ítrekað á forsetatíð sinni neitað að saka Rússa fyrir aðgerðir þeirra sem beinst hafa gegn Bandaríkjunu, jafnvel þó þær séu vel skráðar.

Samkvæmt heimildum Reuters eru Biden-liðar að íhuga viðskiptaþvinganir og tölvuárásir á innviði Rússlands.

Mark Warner, æðsti þingmaður Demókrataflokksins í leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, sagði í viðtali í gær að enn væri ekki ljóst hve umfangsmikil tölvuárásin væri og og hún gæti enn verið yfirstandandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×