Erlent

Evrópu­nefndin fundar um leyfið viku fyrr en á­ætlað var

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fram kemur í tilkynningu Lyfjastofnunar Íslands um málið nú fyrir skömmu að sérfræðinganefndinni hefði borist viðbótarupplýsingar frá Pfizer og BioNTech í gærkvöldi.
Fram kemur í tilkynningu Lyfjastofnunar Íslands um málið nú fyrir skömmu að sérfræðinganefndinni hefði borist viðbótarupplýsingar frá Pfizer og BioNTech í gærkvöldi. Jakub Porzycki/NurPhoto/Getty

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu, sem leggur mat á markaðsleyfisumsókn bóluefnis Pfizer í Evrópu, hyggst flýta fundi um umsóknina. Fundað verður 21. desember en áður var ekki áætlað að halda fundinn fyrr en þann 29. desember.

Fram kemur í tilkynningu Lyfjastofnunar Íslands um málið nú fyrir skömmu að sérfræðinganefndinni hefði borist viðbótarupplýsingar frá Pfizer og BioNTech í gærkvöldi. Ef mat á þeim gögnum gefi tilefni til verði haldinn „sérstakur viðbótarfundur“ 21. desember, þar sem vonandi verði hægt að leggja lokamat á markaðsleyfisumsóknina.

Fundurinn 29. desember verði einnig haldinn, verði talinn þörf á honum. Nefndin muni ljúka mati sínu eins fljótt og auðið er „þegar gögn um gæði, öryggi og virkni bóluefnisins sýna með óyggjandi hætti að ávinningur af notkun bóluefnisins vegi þyngra en áhættan af notkuninni.“

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni að því loknu flýta allri sinni vinnu með það fyrir augum að gefa út markaðsleyfi á fáeinum dögum. Sú vinna sé fólgin í yfirlestri á þýðingum o.fl. í þeim dúr en ekki vísindalegu mati. Tekur það markaðsleyfi gildi í Evrópusambandinu við útgáfu.

Hérlendis muni Lyfjastofnun að því loknu vinna að kappi að því að gefa út íslenskt markaðsleyfi sem byggi á markaðsleyfi framkvæmdastjórnar ESB á sem allra skemmstum tíma. Standa vonir til að sú vinna stofnunarinnar taki aðeins fáeina daga.

Þegar hefur fengist leyfi til notkunar og dreifingar Pfizer-bóluefnisins í Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum. Byrjað er að bólusetja fyrir veirunni í löndunum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×