Erlent

Nýtt afbrigði SARS-CoV-2 greinist á Bretlandseyjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viðbúnaður hefur verið aukinn og nýjar reglur tekið gildi eftir aukinn fjölda smita í Bretlandi.
Viðbúnaður hefur verið aukinn og nýjar reglur tekið gildi eftir aukinn fjölda smita í Bretlandi. epa/Andy Rain

Heilbrigðisráðherra Breta, Matt Hancock, sagði frá því í gær að nýtt afbrigði SARS-CoV-2 hefði fundist í landinu. Fleiri en þúsund tilvik hafa greinst, flest í suðurhluta Bretlands.

Frá þessu greinir Guardian og hefur eftir Hancock að umrætt afbrigði hafi breiðst hraðar út en þau sem fyrir voru en afar ólíklegt sé að bóluefnin sem hafa verið þróuð gegn veirunni vinni ekki líka gegn nýja afbrigðinu.

Að sögn Chris Witty, aðal heilbrigðisráðgjafa stjórnvalda, er ekkert sem bendir til þess að nýja afbrigðið sé hættulegra en önnur og það finnist við hefðbundna skimun. Þá sagði hann í gær að uppgötvun þess væri ekki ástæða aukins viðbúnaðar vegna Covid-19 faraldursins.

Samkvæmt Guardian segja vísindamenn að koma muni í ljós hvort uppgötvun nýja afbrigðisins muni hafa áhrif á bólusetningar.

Wendy Barcley, prófessor við Imperial College London og meðlimur ráðgjafahóps ríkisstjórnarinnar í neyðartilvikum (SAGE) segir afbrigðið búa yfir stökkbreytingum á svokölluðum bindiprótínum en mörg bóluefnanna virka einmitt á umrædd prótín.

Hún segir rannsóknir á næstu vikum munu leiða í ljós hvort stökkbreytingarnar hafa áhrif á virkni bóluefnanna.

„Þetta er mögulega alvarlegt; eftirlit og rannsóknir verða að halda áfram og við verðum að taka nauðsynleg skref til að vera á undan veirunni,“ sagði Jeremy Farrar, framkvæmdastjóri Wellcome Trust.

Talsmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sagði stofnunina eiga í samskiptum við breska sérfræðinga vegna afbrigðisins en enn sem komið er benti ekkert til þess að það hegðaði sér öðruvísi.

Frétt Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×