Erlent

For­sætis­ráð­herrann látinn fá­einum vikum eftir að hafa greinst með Co­vid-19

Atli Ísleifsson skrifar
Ambrose Dlamini, forsætisráðherra Esvatíní, er lengst til hægri á myndinni. Með honum eru Amina Mohammed, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (til vinstri), og Mokgweetsi Masisi, forseti Botsvana, hér fyrir miðju.
Ambrose Dlamini, forsætisráðherra Esvatíní, er lengst til hægri á myndinni. Með honum eru Amina Mohammed, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (til vinstri), og Mokgweetsi Masisi, forseti Botsvana, hér fyrir miðju. EPA

Forsætisráðherra Afríkuríkisins Esvatíní, Ambrose Dlamini, er látinn, 52 ára að aldri. Hann lést um mánuði eftir að hafa greinst með Covid-19.

Í tilkynningu frá ríkisstjórn landsins segir að Dlamini hafi andast síðdegis í gær á sjúkrahúsi í Suður-Afríku. Ekkert er minnst á dánarorsök, en áður hafði verið tilkynnt um að hann hafi greinst með Covid-19 og að hann nyti aðhlynningar á sjúkrahúsi í Suður-Afríku.

Dlamini hafði gegnt embætti forsætisráðherra Esvatíní, landsins sem áður gekk undir nafninu Svasíland, síðan í október 2018. Landið er eitt af örfáum ríkjum sem eftir eru þar sem konungur er svo gott sem alráður. Er landið landlukt og á einungis landamæri að Suður-Afríku.

Alls búa rúmlega milljón manns í Esvatíní, en þar eru skráð kórónuveirusmit nú tæplega sjö þúsund og hafa andlát 127 manna verið rakin til Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×