Innlent

Þykir tölurnar svolítið háar á sunnudegi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 á Íslandi.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 á Íslandi. Vísir/Stöð 2

Prófessor í líftölfræði þykir Covid-tölur gærdagsins heldur háar í ljósi þess að þær ber upp um helgi. Þó sé jákvætt að allir hafi verið í sóttkví. Smitstuðull á landinu er nýkominn undir einn.

„Það verður bara að halda þetta út. Við þurfum að ná smitstuðlinum þarna undir í svolítinn tíma. Við höfum alveg skriðið áður rétt undir og svo bara rýkur þetta upp aftur. Þetta er engin ávísun á að það sé allt í góðu. En þetta gengur alveg vel, það má ekki gleyma því,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands og einn forsvarsmanna spálíkans HÍ um þróun kórónuveirufaraldursins á Íslandi.

Smitstuðull segir til um hvað einstaklingur sem sýkist af Covid-19 mun að jafnaði smita marga aðra. Ef stuðullinn er lengi yfir einum er hætta á að faraldurinn fari í veldisvöxt.

Aðeins órólegur

Sjö greindust með veiruna í gær og voru öll í sóttkví. Fá sýni voru tekin eins og er iðulega um helgar; 42 sýni í sóttkvíar- og handahófsskimun og 395 í einkennasýnatöku Íslenskrar erfðagreiningar og Landspítala, að því er fram kemur á Covid.is.

„Annars finnst mér þetta svolítið hátt fyrir sunnudag, ég var aðeins órólegur en að þeir hafi allir verið í sóttkví var á móti jákvætt. Þetta er eins og við höfum oft talað um, dálítið krítískt,“ segir Thor.

Fréttir hafa borist af miklu skemmtanahaldi á höfuðborgarsvæðinu í nótt, með tilheyrandi hópamyndunum. Thor segir erfitt að áætla hvort það hafi áhrif á þróunina næstu daga og vikur.

„Ég veit það ekki. Það er ómögulegt að segja. Við höfum lent í þessu áður, þegar okkur fer að lítast á blikuna þá aðeins losnar um, kemur kannski smá bakslag. En ég veit það ekki, við verðum að sjá til.“


Tengdar fréttir

Hefur áhyggjur af næstu dögum vegna mikilla hópamyndana

Sjö greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og voru allir í sóttkví við greiningu. Fimm greindust á landamærunum og er beðið eftir niðurstöðu mótefnamælingar. 347 eru í sóttkví en þeim fjölgaði um 55 milli daga. 33 eru á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu.

Sjö innan­lands­smit og öll í sótt­kví

Sjö greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og voru öll í sóttkví við greiningu. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á Covid.is  Fimm greindust á landamærunum og er beðið niðurstöðu mótefnamælingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×