Íslenski boltinn

KSÍ dæmt í hag í málum KR og Fram gegn stjórn sambandsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR tapaði sínu máli.
KR tapaði sínu máli. vísir/bára

Áfrýjunardómstóll Knattspyrnusambands Íslands hefur staðfest úrskurð aga- og úrskurðarnefndar í máli KR gegn stjórn KSÍ. Þá var máli Fram gegn stjórninni vísað frá.

KR kærði ákvörðun stjórnar KSÍ að hætta keppni á Íslandsmótinu 30. október síðastliðinn og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Ákvörðunin byggði á reglugerð stjórnar KSÍ frá 17. júlí, vegna kórónuveirufaraldursins. Fram fór fram á að viðurkennt yrði að Leiknir R. og Fram væru jafnstæð og að ákvörðunin um að Leiknir hlyti sæti í Pepsi Max-deild karla yrði ógild.

Upphaflega vísaði aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kröfum KR og Fram frá. Félögin áfrýjuðu þá til áfrýjunardómstóls KSÍ sem kvað á að um að aga- og úrskurðarnefndin þyrfti að taka málin fyrir á nýjan leik. Kröfum KR og Fram var aftur hafnað en þeim úrskurði var áfrýjað til áfrýjunardómstólsins sem tók mál félaganna fyrir.

Í máli KR staðfesti áfrýjunardómstóllinn úrskurð aga- og úrskurðarnefndar. Í niðurstöðukafla dómsins segir meðal annars: „Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að aðstæður hafi verið með öðrum hætti en lýst hefur verið hér að framan og að mat stjórnar KSÍ hafi byggt á öðru en málaefnalegum sjónarmiðum þar sem mat á heildarhagsmunum aðildarfélaga KSÍ hafi verið hafðir í huga. Áfrýjunardómstóll KSÍ fellst því ekki á þá málsástæðu áfrýjanda að lokaákvörðun stjórnar KSÍ frá 30. október 2020 hafi ekki verið byggð á réttum lagalegum grundvelli og nauðsyn vegna meiriháttar utanaðkomandi atburðar.“

Máli Fram var vísað frá aga- og úrskurðarnefnd. „Í máli þessu hefur áfrýjandi uppi kröfur sem ætlað er að vera bindandi fyrir knattspyrnudeild Íþróttafélagsins Leiknis. Áfrýjandi hefur þrátt fyrir þetta ekki beint málssókn sinni að knattspyrnudeild Íþróttafélagsins Leiknis og hefur hann því ekki kost á að gæta hagsmuna sinna við meðferð málsins. Með vísan til ofangreinds er máli þessu vísað frá aga- og úrskurðarnefnd KSÍ,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.

Dómur í máli KR í heild sinni

Dómar í máli Fram í heild sinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×