Erlent

Pfizer-bóluefnið virðist veita góða vörn eftir fyrsta skammt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Pfizer-bóluefnið lofar góðu.
Pfizer-bóluefnið lofar góðu. Jakub Porzycki/NurPhoto/Getty

Fyrstu athuganir Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna á virkni bóluefnis Pfizer benda til þess að það veiti góða vörn gegn kórónuveirunni á innan við tíu dögum frá fyrsta skammti.

New York Times greinir frá og vísar í gögn sem stofnunin hefur birt á vefsíðu sinni í aðdraganda þess að ráðgjafahópur stofnunarinnar um bóluefni fundar.

Lyfjafyrirtækið Pfizer, sem þróaði bóluefnið ásamt BioNtech, gaf út í nóvember að þriðja stig prófana sýndi að bóluefnið veitti 95 prósent vörn gegn kórónuveirunni með tveimur skömmtum með þriggja vikna millibili.

Gögnin sem New York Times vitnar í benda hins vegar til þess að bóluefnið veiti góða vörn fyrr en áður hafði verið reiknað með. Um er að ræða greiningu á athugunum sérfræðinga Matvæla- og lyfjastofnunarinnar sem og Pfizer.

Virðist virka vel óháð aldri, kynþætti eða þyngd

Þá segir einnig í frétt New York Times að bóluefnið hafi virkað vel, óháð aldri, kynþætti eða þyngt þeirra sem fengu bóluefnið í prófunum. Engar alvarlegar aukaverkanir hafi fundist en margir sjálfboðaliðar fundu þó fyrir verkjum, hita og öðrum aukaverkunum.

Ráðgjafaráð stofnunarinnar mun fara yfir gögnin á fundi á fimmtudaginn. Vinnan er hluti af því ferli sem er nú í gangi hjá stofnunni um hvort heimila eigi notkun bóluefnisins.

Vonir standa til að Pfizer fái skilyrt markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu 29. desember þegar fjallað verður um hvort stofnunin geti mælt með því að lyfið verði tekið í notkun. Reiknað er með að skrifað verður undir samning Íslands við framleiðanda bóluefnis Pfizer í vikunni um kaup á bóluefni sem dugar fyrir 85.000 einstaklinga hér á landi.

Lesa má frétt New York Times hér.


Tengdar fréttir

92% Íslendinga ætla í bólusetningu

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er jákvæður í garð bólusetningar gegn Covid-19 en í könnun Maskínu sögðust 61% þátttakenda örugglega ætla í bólusetningu og 31% líklega ætla í bólusetningu.

Ríkið kaupir bóluefni af Pfizer fyrir 85 þúsund manns

Skrifað verður undir samning Íslands við framleiðanda bóluefnis Pfizer í næstu viku um kaup á bóluefni sem dugar fyrir 85.000 einstaklinga. Vonir standa til að Pfizer fái skilyrt markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu 29. desember þegar fjallað verður um hvort stofnunin geti mælt með því að lyfið verði tekið í notkun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×