Innlent

Áfram tíu manna samkomubann en sundlaugar opnaðar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Vísir/vilhelm

Samkomubann mun áfram miðast við tíu manns til 12. janúar með nýjum sóttvarnareglum sem taka gildi á fimmtudag. Allar verslanir munu þó geta tekið við fimm manns á hverja tíu fermetra, mest hundrað manns, og þá verða sundlaugar opnaðar. 

Þetta kynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi fyrir utan Ráðherrabústaðinn nú í morgun. 

Líkt og áður segir munu aðgerðirnar sem taka gildi næsta fimmtudag 10. desember gilda í rúman mánuð, eða til 12. janúar, sem Svandís sagði óvenjulangan tíma. Hingað til hafa aðgerðir iðulega gilt í tvær til þrjár vikur í senn. 

Opið lengur á veitingastöðum

Auk breytinga á fjöldatakmörkunum í verslunum munu veitingastaðir geta tekið á móti fimmtán manns og þá verður þeim heimilt að lengja opnunartíma sinn til 22. Ekki verður þó heimilt að taka við nýjum viðskiptavinum eftir klukkan 21.

Kynningu ráðherra á aðgerðunum og viðtal Lillýjar Valgerðar Pétursdóttur fréttamanns má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.

Sund- og baðstöðum verður einnig heimilt að opna á ný fyrir allt að 50 prósent af leyfilegum hámarksfjölda staðanna. Líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar.

Rýmkað í sviðslistum og íþróttum

Íþróttaæfingar einstaklinga sem fæddir eru 2004 og fyrr eru heimilar með og án snertingar í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deild. Æfingar afreksfólks í einstaklingsbundnum íþróttum eru heimilar. Æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta eru þó ekki heimilar.

Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir verða einnig heimilaðir með allt að 30 manns á sviði í einu. Heimilt verður að taka við 50 gestum í sæti á slíka viðburði en þeim skylt að bera grímu. 

Þá verður fyrirkomulag skólastarfs að mestu óbreytt fyrir utan eftirfarandi breytingar:

  • Ákvæði um blöndun og hámarksfjölda leikskólabarna felld brott. Með þessu móti geta leikskólar aðlagað starfsemi sína betur yfir hátíðirnar þar sem barnahópar eru gjarna sameinaðir milli deilda eða jafnvel leikskóla.
  • Lestrarrými í framhaldsskólum og háskólum opnað fyrir allt að 30 nemendur.
  • Reglur um skólastarf sem taka gildi frá og með 1. janúar 2021 verða kynntar fljótlega. 

Svandís sagðist hafa gert nokkrar breytingar á tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis í samráði við hann. Breytingarnar vörðuðu til dæmis fyrirkomulag á veitingastöðum og í jarðarförum, hvar hámarksfjöldi verður 50 með nýju reglunum.

Tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins um tilslakanir á sóttvarnareglum frá 10. desember má nálgast hér. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

„Frábær vinna hjá smitrakningarteyminu“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnar því að af 44 greindum smitum hér á landi í desember hafi aðeins þrír verið utan sóttkvíar. 41 hafa verið í sóttkví við greiningu sem svarar til 93 prósenta.

Þór­ólfur búinn að skila minnis­blaði

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblaði með tillögum að áframhaldandi sóttvarnaaðgerðum nú síðdegis. Þetta staðfestir Þórólfur í samtali við fréttastofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×