Innlent

„Frábær vinna hjá smitrakningarteyminu“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er ánægð með stöðu mála. Fróðlegt verður að sjá hvað sóttvarnalæknir leggur til varðandi aðgerðir frá og með 10. desember. 
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er ánægð með stöðu mála. Fróðlegt verður að sjá hvað sóttvarnalæknir leggur til varðandi aðgerðir frá og með 10. desember.  Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnar því að af 44 greindum smitum hér á landi í desember hafi aðeins þrír verið utan sóttkvíar. 41 hafa verið í sóttkví við greiningu sem svarar til 93 prósenta.

„Frábær vinna hjá smitrakningarteyminu sem fylgir leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðisráðastofnunarinnar,“ segir Katrín á Twitter. „Höldum uppteknum hætti!“

Katrín sleppir reyndar tölunum fyrir 1. desember í upptalningu sinni en þann dag greindust sextán smitaðir og voru ellefu í sóttkví. Samanlagt hafa því sextíu greinst smitaðir hér á landi í desember og átta þeirra voru utan sóttkvíar. Því hafa 87 prósent þeirra sem greinst hafa í desember verið í sóttkví við greiningu.

Björgvin Ingi Ólafsson, sviðsstjóri hjá Deloitte, fylgist vel með tölunum. Hann birtir í framhaldi af tísti Katrínar graf sem sýnir fimm daga meðaltal smita utan sóttkvíar. Staðan hafi aldrei verið betri í þeirri bylgju sem nú standi yfir.

Núverandi aðgerðir hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins gilda til og með miðvikudagsins 9. desember. Þær fela meðal annars í tíu manna samkomubann, sundlaugar eru lokaðar sem og líkamsræktarstöðvar auk þess sem aðeins tíu gestir eru leyfðir í verslunum sem selja ekki matvöru.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir gaf ekki kost á viðtölum um helgina en fram kom fyrir helgi að hann ætlaði að fylgjast með gangi mála um helgina áður en hann skilaði tillögum til heilbrigðisráðherra að næstu aðgerðum.

Aðgerðir sem staðið höfðu í tvær vikur voru framlengdar 2. desember um eina viku. Nokkrum dögum fyrr hafði sóttvarnalæknir skilað tillögum um tilslakanir til ráðherra sem fólu meðal annars í sér að tuttugu mættu koma saman og sundlaugar yrðu opnaðar. Skyndileg aukning í fjölda smitaðra í samfélaginu varð til þess að hann dró minnisblaðið til baka.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.