Enski boltinn

Um­boðs­maður Pogba segir miðju­manninn ó­hamingju­saman og að hann þurfi að komast frá Manchester

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Er tími Paul Pogba í Manchester að renna sitt skeið?
Er tími Paul Pogba í Manchester að renna sitt skeið? EPA-EFE/Paul Ellis

Mino Raiola, umboðsmaður Paul Pogba, segir að miðjumaðurinn sé óhamingjusamur og þurfi að yfirgefa Manchester United hið snarasta. 

Man United mætir RB Leipzig í Þýskalandi á morgun í leik sem sker úr um hvort liðið kemst í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Paul Pogba var í byrjunarliði Man Utd gegn West Ham United um helgina. Skoraði hann í 3-1 sigri liðsins og því koma ummæli Raiola á óvart.

Samningur hins 27 ára gamla Pogba við enska félagið rennur út sumarið 2022 en Raiola segði í viðtali við ítalska miðilinn Tuttosport að skjólstæðingur sinn þurfi helst að yfirgefa félagið strax í janúar á næsta ári.

„Pogba er óhamingjusamur og getur ekki tjáð sig eins og hann vill eða fólk vill að hann geri. Hann er með samning í tvö ár í viðbót en ég held það sé öllum fyrir bestu að hann verði seldur í janúar,“ sagði Raiola í viðtalinu.

„Tími hans hjá Man United er búinn. Það er óþarfi að tala undir rós, það er betra að tala hreint út og horfa áfram veginn,“ bætti Raiola við.

Pogba lék aðeins 22 leiki í öllum keppnum á síðustu leiktíð vegna ökklameiðsla. Hann átti hins vegar góðan leik um helgina og gæti verið í byrjunarliði Man Utd er liðið mætir RB Leipzig annað kvöld í úrslitaleik um hvort liðið fer í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×