Enski boltinn

Rúnar Alex í marki Arsenal í fyrsta leiknum fyrir framan áhorfendur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson sést hér á blaðamannafundi Arsenal í gær.
Rúnar Alex Rúnarsson sést hér á blaðamannafundi Arsenal í gær. Getty/David Price

Allar líkur eru á því að íslenski landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson fá í kvöld sinn þriðja leik með aðalliði Arsenal og það verður líka mikill tímamótaleikur fyrir Lundúnafélagið í þessum kórónufaraldri.

Arsenal verður nefnilega fyrsta liðið í ensku úrvalsdeildinni til að fá aftur áhorfendur inn á leikvanginn sinn þegar liðið tekur á móti Rapid Vín í Evrópudeildinni í kvöld.

Breska ríkisstjórnin hefur ákveðið að leyfa áhorfendur aftur á íþróttakappleikjum á þeim svæðum sem hafa náð betri stjórn á kórónuveirufaraldrinum. London er ein af þeim borgum sem hafa fengið þetta græna ljós.

Fyrstu áhorfendurnir komu á leiki í neðri deildunum í gærkvöldi og í kvöld verður Arsenal fyrsta liðið úr ensku úrvalsdeildinni síðan í mars til að fá fólk í stúkuna.

Manchester er enn á lokuðu svæði vegna verri stöðu þar og því mátti Manchester United ekki fá áhorfendur á sinn leik í Meistaradeildinni í gær.

Rúnar Alex Rúnarsson var sá leikmaður Arsenal sem mætti á blaðamannafund fyrir leikinn á móti Rapid Vín og sú staðreynd í bland við góða frammistöðu hans í fyrstu leikjunum nánast gulltryggir það að knattspyrnustjórinn Mikel Arteta ætli að tefla KR-ingnum fram í leiknum í kvöld.

Rúnar Alex hefur haldið hreinu í tveimur fyrstu leikjum sínum með Arsenal en þeir voru báðir í Evrópudeildinni. Liðið vann þá 3-0 heimasigur á írska félaginu Dundalk og 3-0 útisigur á norska félaginu Molde.

51 af 104 félögum í úrvalsdeild karla, úrvalsdeild kvenna og ensku neðri deildunum mega nú taka á móti tvö þúsund manns á leiki sína. Þetta er náttúrulega ekki mikill fjöldi fyrir stóru liðin en samt stór tímamót.

Öll ensku úrvalsdeildarliðin í suður Englandi sem og Liverpool og Everton mega taka á móti áhorfendum en alls eru það tíu lið í deildinni sem verða áfram í áhorfendabanni.

Fyrsti leikurinn í sjálfri úrvalsdeildinni til að taka á móti áhorfendum verður leikur West Ham og Manchester United á Ólympíuleikvanginum í London á laugardaginn kemur. United spilar því þar fyrir framan áhorfendur þótt að félagið megi ekki fá áhorfendur inn á Old Trafford.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.