Fótbolti

Rúnar Alex fékk góða dóma fyrir frammistöðuna gegn Molde: „Svalur með boltann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson ver frá Leke James, framherja Molde.
Rúnar Alex Rúnarsson ver frá Leke James, framherja Molde. getty/Erik Birkeland

Enskir fjölmiðlar gáfu íslenska landsliðsmarkverðinum hjá Arsenal almennt góða einkunn fyrir frammistöðuna gegn Molde.

Rúnar Alex Rúnarsson fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína í marki Arsenal í 0-3 sigrinum á Molde í Evrópudeildinni í gær.

Rúnar Alex fékk sjö í einkunn hjá ESPN. „Markvörðurinn ungi var traustur þegar á þurfti að halda og sýndi góð viðbrögð þegar hann varði í fyrri hálfleik,“ segir í umsögn um frammistöðu íslenska landsliðsmannsins. Hann fékk einnig sjö í einkunn hjá Sky Sports.

The Independent og Evening Standard gáfu Rúnari Alex bæði sex í einkunn. „Gerði nokkuð vel þegar hann varði frá Sinyan eftir stundarfjórðung þótt afgreiðslan hafi ekki verið neitt sérstök. Misreiknaði algjörlega langa sendingu frá Linde, rauk út úr markinu og missti af boltanum,“ segir í umsögn Independent.

Leikurinn í gær var annar leikur Rúnars Alex fyrir Arsenal. Hann þreytti frumraun sína með Skyttunum í 3-0 sigri á Dundalk í Evrópudeildinni í síðasta mánuði.

Með sigrinum í gær tryggði Arsenal sér sæti í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Nicolas Pépé, Reiss Nelson og Folarin Balogun skoruðu mörk Arsenal í gær. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.