Enski boltinn

Ca­vani biðst af­sökunar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Cavani kom eins og stormsveipur inn af bekknum í gær.
Cavani kom eins og stormsveipur inn af bekknum í gær. Mike Hewitt/Getty Images

Edinson Cavani varð á í gær og setti færslu á Instagram sem enska knattspyrnusambandið nú rannsakar.

Edinson Cavani, framherji Manchester United, hefur beðist afsökunar á færslu sem hann setti á Instagram eftir sigur Man. United á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Eftir leikinn setti Cavani inn skilaboð í Instagram Story svaraði hann fylgjanda sem óskað hafði honum til hamingju með frammistöðuna, með orðunum „gracias negrito!“.

Spænska orðið „negrito“ getur verið notað með niðrandi hætti. Samkvæmt frétt BBC kveðst Cavani aðeins hafa meint vel með því sem hann skrifaði. Svona sé orðið notað í Úrúgvæ en þaðan er þessi 32 ára framherji.

„Skilaboðin sem ég setti inn eftir leikinn voru til þess að þakka vini mínum fyrir sem hafði óskað mér til hamingju. Síðasta sem ég vildi gera var að móðga einhvern,“ sagði Cavani í yfirlýsingu.

„Ég er algjörlega á móti rasisma og eyddi skilaboðunum um leið og mér varð það ljóst að þau gætu verið túlkuð öðruvísí. Ég biðst afsökunar á þessu.“

United hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu en þar segir félagið að Cavani hafi eytt skilaboðunum um leið og hann hafi vitað hvernig hægt væri að túlka orð hans. Enska úrvalsdeildin rannsakar nú málið og óvíst er hvenær niðurstaða kemur í málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×