Erlent

Kínverjar hafna því að þeir stundi upplýsingafals um veiruna

Kjartan Kjartansson skrifar
Stjórnvöld í Beijing hafa verið sérlega viðkvæm fyrir allri gagnrýni á viðbrögð þeirra við kórónuveirufaraldrinum sem kom fyrst upp í borginni Wuhan í desember.
Stjórnvöld í Beijing hafa verið sérlega viðkvæm fyrir allri gagnrýni á viðbrögð þeirra við kórónuveirufaraldrinum sem kom fyrst upp í borginni Wuhan í desember. Vísir/EPA

Utanríkisráðuneyti Kína þvertekur fyrir að ríkisstjórnin þar dreifi nú fölskum upplýsingum kórónuveiruna og fullyrðir að hún sé sjálf fórnarlamb upplýsingafals. Umtalsverðar vísbendingar eru sagðar um leynilega samfélagsmiðlaherferð kínverskra stjórnvalda í tengslum við faraldurinn í skýrslu Evrópusambandsins.

Kínversk og rússnesk stjórnvöld voru sökuð um að bera ábyrgð á upplýsingafals um veiruna í skýrslu utanríkisþjónustu Evrópusambandsins á dögunum. Stjórnvöld í Beijing þrýstu á sambandið að breyta skýrslunni fyrir birtingu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Kína er á móti því að hver sem er eða hvaða samtök sem eru búa til og dreifi fölskum upplýsingum. Kína er fórnarlamb upplýsingafals, ekki upphafsmaður þess,“ fullyrti Geng Shuang, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína á blaðamannafundi í dag.

Fjöldi ríkja hefur kallað eftir óháðri rannsókn á veirunni og uppruna hennar. Kínversk stjórnvöld hafa hafnað slíkum umleitunum og varið viðbrögð sín við faraldrinum af krafti.

Geng segir engar afgerandi sannanir fyrir því að veiran hafi átt upptök sín í Kína. Faraldurinn blossaði þó fyrst upp í borginni Wuhan í desember og breiddist þaðan út um allan heim. Alls hafa nú tæplega þrjár milljónir jarðarbúa smitast af veirunni og rúmlega 207.000 manns látið lífið.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×