Innlent

Þór­ólfur búinn að greiða ár­gjaldið í World Class

Sylvía Hall skrifar
Þórólfur hefur verið viðskiptavinur World Class í mörg ár.
Þórólfur hefur verið viðskiptavinur World Class í mörg ár. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir tilgátur Björns Leifssonar, eiganda World Class, um að hann hafi fóbíu fyrir líkamsræktarstöðvum vera fjarri lagi. Hann hafi verið viðskiptavinur World Class í mörg ár og sé búinn að greiða árgjaldið í ár, þó hann hafi ekkert æft vegna faraldursins.

„Ég glotti bara út í annað,“ sagði Þórólfur í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2 þegar ummæli Björns við mbl.is voru borin undir hann. 

„Ég er búinn að vera viðskiptavinur World Class í mörg ár og borga reglulega gjöld þar inn með glöðu geði. Ég hef átt þar góðar stundir, meira að segja búinn að borga heilt árgjald allt þetta ár og hef aldrei farið.“

Björn greindi frá því í dag að hann hefði tekið eins milljarðs króna lán vegna kórónuveirufaraldursins og velti nú fyrir sér hvort rétt væri að segja upp 350 starfsmönnum á mánudag. 

Hann væri svartsýnn á að líkamsræktarstöðvar myndu opna aftur fyrir áramót og velti því upp hvort Þórólfur hefði fóbíu fyrir líkamsræktarstöðvum. Honum þætti hann í það minnsta tala á þann hatt.

„Það er fjarri lagi að ég hafi nokkra fóbíu fyrir líkamsræktarstöðvum. Ég lít hins vegar kalt á málin. Það er ákveðin smithætta þar eins og hefur komið upp í rakningu hjá okkur og rakningu erlendis, það er það sem við leggjum til grundvallar,“ sagði Þórólfur.

„Ég hef ekkert á móti líkamsræktarstöðvum, þó síður sé.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×