Innlent

Þórólfur um smit Víðis: „Vont fyrir okkur og verst fyrir hann“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason á fundinum í dag.
Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason á fundinum í dag. Vísir/Egill

„Þetta er náttúrulega bara slæmt mál en ekkert svo sem óviðbúið þannig. Við vitum að það eru allir í áhættu.“

Þetta segir Þórólfur Guðnason um Covid-19 smit Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns, sem greint var frá í dag. Þórólfur og Víðir starfa sem kunnugt er náið saman í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum. Víðir hefur sjálfur sagt að hann hafi smitast af eiginkonu sinni en ekkert hefur gengið að rekja hvaðan smit barst í hana.

„Við höfum alltaf sagt að allar aðgerðir miðast að því að lágmarka áhættuna á því að veiran berist á milli. Það þýðir það er enginn eiginlega óhultur almennilega. Þetta er vont fyrir okkur og verst fyrir hann sjálfan að lenda í þessu,“ segir Þórólfur.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að Víðir og hans nánasta samstarfsfólk auk Ölmu Möller landlæknis og Þórólfur hafi farið í sýnatöku á mánudag. Sýni þeirra allra reyndust neikvæð á mánudagskvöld. Hvorugt þeirra þarf að fara í sóttkví vegna smits Víðis.

„Það er vegna þess að við vitum alveg hvar Víðir var útsettur fyrir smitinu. Það var fyrir utan vinnuna, utan stofnunina og hann fór í próf á mánudaginn og var neikvæður þá. Það var þá sem þessi einstaklingur sem að smitið kom frá var að greinast og byrja að fá einkenni. Við vitum að hann var ekki smitandi þá þó að hann sé kominn með veiruna núna,“ segir Þórólfur.

Vitað sé hvenær áhættan sé mest á smiti, rétt um bil þegar fólk fer að finna fyrir einkennum, sem geti tekið upp undir viku.

Þannig að hann hefur farið í tæka tíð í sóttkví?

„Já, hann fór alveg á hárréttu augnabliki í sóttkví.“

Þórólfur ræddi málin í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Hlusta má á viðtalið hér að ofan en þar ræddi hann meðal annars hvað framundan er í baráttunni gegn faraldrinum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.