Erlent

Segir myndefni af lokun tjaldbúða í París vera sláandi og heitir rannsókn

Samúel Karl Ólason skrifar
Til átaka kom á milli lögregluþjóna annarsvegar og aðgerðasinna og farand- og flóttamanna hins vegar.
Til átaka kom á milli lögregluþjóna annarsvegar og aðgerðasinna og farand- og flóttamanna hins vegar. AP/Alexandra Henry

Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, hefur fyrirskipað innri rannsókn á aðgerðum lögreglunnar gegn farand- og flóttafólki í París í gærkvöldi. Lögregluþjónar fjarlægðu tjaldbúðir sem búið var að reisa á torgi í austurhluta borgarinnar og ráðherrann segir myndefni af vettvangi vera sláandi.

Lögreglan segir tjalbúðirnar hafa verið reistar í leyfisleysi af sjálfboðaliðum og aðgerðasinnum og að torgið hafi þess vegna verið rýmt og hald lagt á tjöld þeirra sem héldu til þar. Myndbönd sýna lögregluþjóna beita táragasi gegn íbúum um 500 tjalda, sem voru flestir menn frá Afganistan, samkvæmt frétt France24.

Einnig sýnir myndefni lögregluþjóna draga fólk í burtu í tjöldum og jafnvel slá til íbúa búðanna og aðgerðasinna.

Tjaldbúðirnar voru reistar í mótmælaskyni eftir að sambærilegum búðum annarsstaðar í París hafði verið lokað.AP/Alexandra Henry

AP fréttaveitan hefur eftir sjálfboðaliðum að lögregluþjónar hafi tekið tjöld upp og hrist fólk úr þeim. Þá hafi verið sparkað í mennina og þeir barðir með kylfum.

Darmanin hét því að gera niðurstöður rannsóknarinnar opinberar.

Búðirnar höfðu í raun verið settar upp af aðgerðasinnum í mótmælum gegn því að sambærilegum búðum annarsstaðar í borginni var lokað í síðustu viku.

Hér má sjá sjónvarpsfrétt France24 um aðgerðirnar. Þar er meðal annars rætt við íbúa tjaldbúðanna sem segjast eingöngu vilja þak yfir höfuðið.

Aðgerðirnar hafa fengið mikla athygli og þá að miklum hluta vegna frumvarps sem greiða á atkvæði um á franska þinginu í dag. Því frumvarp er ætlað að auka valdheimildir og vernd lögregluþjóna. Meðal annars gerir frumvarpið það ólöglegt að birta myndefni af lögregluþjónum, í þeim tilgangi að valda þeim skaða.

Frumvarpinu hefur verið harðlega mótmælt og er sagt koma niður á réttindum borgara og fjölmiðla. Yfirvöld segja hins vegar að frumvarpinu sé ætlað að vernda lögregluþjóna gegn áköllum um ofbeldi á netinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×