Erlent

Stað­festa sigur Bidens í Michigan

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Biden tekur við embætti Bandaríkjaforseta þann 20. janúar næstkomandi.
Biden tekur við embætti Bandaríkjaforseta þann 20. janúar næstkomandi. Mark Makela/Getty

Kjörstjórn Michigan-ríkis í Bandaríkjunum hefur nú staðfest sigur demókratans Joes Bidens í ríkinu í forsetakosningunum sem fram fóru fyrr í þessum mánuði. Biden vann ríkið með því að fá tæplega 155 þúsund fleiri atkvæði en Donald Trump, fráfarandi forseti.

Biden vann forsetakosningarnar, en hann fékk 306 kjörmenn á móti 232 kjörmönnum Trumps í kjörmannakerfinu sem stuðst er við þegar Bandaríkjamenn velja sér forseta. Michigan færði Biden 16 kjörmenn.

Staðfesting kjörstjórnar á sigri Bidens eru taldar mikið reiðarslag fyrir framboð Trumps, en hann hefur ítrekað haldið því fram að víðtækt kosningasvindl hafi fært Biden sigurinn í kosningunum. Engar haldbærar sannanir hafa þó verið lagðar fram fyrir svindli af þeim skala sem gæti snúið niðurstöðunni og málum sem framboð forsetans hefur farið með fyrir dóm hefur flestum verið vísað frá.

Í kjörstjórn Michigan sitja fjórir meðlimir, tveir úr hvorum stóru flokkanna í Bandaríkjunum. Báðir fulltrúar demókrata greiddu atkvæði með því að staðfesta úrslitin, og annar repúblikananna gerði það sömuleiðis. Hinn kaus að sitja hjá.

Síðastliðinn föstudag voru úrslitin staðfest í Georgíu, öðru ríki þar sem Biden vann sigur. Sá sigur var heldur naumari, en þar munaði tæplega 13 þúsund atkvæðum á frambjóðendunum tveimur.

Michigan er eitt þeirra ríkja sem Trump vann í forsetakosningunum 2016 en Joe Biden tókst að snúa sér í vil. Hin eru Arizona, Georgía, Pennsylvanía og Wisconsin.


Tengdar fréttir

Fækkar í sérsveit lögmanna Trumps

Fækkað hefur í lögmannateymi Donald Trumps, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, sem hefur unnið að því að berjast gegn því umfangsmikla kosningasvindli sem Trump segir hafa kostað sig sigur í forsetakosningunum.

Trump endurgeldur ekki greiða Obama

Fyrir fjórum árum síðan, þann 10. nóvember 2016, bauð þáverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, Donald Trump til fundar við sig í Hvíta húsinu til að leggja grunninn að friðsamlegum valdaskiptum. Ekki er útlit fyrir að Trump hyggist bjóða Joe Biden, nýkjörnum forseta, á slíkan fund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×