Erlent

Fækkar í sérsveit lögmanna Trumps

Samúel Karl Ólason skrifar
Sidney Powell og Rudy Giuliani á blaðamannafundi í síðustu viku.
Sidney Powell og Rudy Giuliani á blaðamannafundi í síðustu viku. AP/Jacquelyn Martin

Fækkað hefur í lögmannateymi Donald Trumps, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, sem hefur unnið að því að berjast gegn því umfangsmikla kosningasvindli sem Trump segir hafa kostað sig sigur í forsetakosningunum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur teymi þetta og aðrir bandamenn forsetans ekki geta sýnt fram á umfangsmikið kosningasvindl fyrir dómi. Þó ásakanirnar og meintar sannanir hafi dreifst víða og margir hafi tekið upp ákall Trumps hefur hvert dómsmálið á fætur öðru hefur tapast eða verið vísað frá.

Lagabarátta Trumps og bandamanna hans hefur einkennst af töpuðum málum, frávísunum, og að lögmannafyrirtæki segi sig frá málum.

Nú síðast var máli teymisins í Pennsylvaínu vísað frá. Í úrskurði sínum fór dómari málsins hörðum orðum um málsóknina en hún sneri að því að fella niður sjö milljónir atkvæða.

Nú hefur teymið slitið öll tengsl við lögmanninn Sidney Powell. Hún var með Rudy Giuliani, sem leiðir viðleitni Trumps til að snúa við niðurstöðum kosninganna, á umdeildum blaðamannafundi í síðustu viku.

Powell staðhæfði meðal annars á fundinum að hún sæti á fjalli sönnunargagna um kosningasvik og sagði að um umfangsmikið samsæri væri að ræða. Að því kæmu George Soros, Hillary Clinton og Hugo Chaves, fyrrverandi forseta Venesúela sem dó árið 2013.

Aðspurð neitaði hún þó að framvísa þessum sönnunargögnum sem hún á að sitja.

Þrátt fyrir að hún hafi verið á blaðamannafundinum í síðustu viku og að Trump hafi tíst um að hún væri í lögmannateymi hans, sem hann lýsti seinna sem sérsveit, segir framboð Trumps nú að hún sé ekki í teyminu.

Á undanförnum dögum hefur Powell haldið áfram að varpa frá sér umdeildum ummælum og meðal annars sakaði hún Brian Kemp, ríkisstjóra Georgíu, og aðra embættismenn um glæpi. Hún gaf aftur í skyn að hún hefði sannanir fyrir umfangsmiklu kosningasvindli í Georgíu og að

Í yfirlýsingu segist hún ætla að halda viðleitni sinni áfram, þrátt fyrir að vera ekki lengur í teymi Trumps. Samkvæmt umfjöllun Politico staðhæfði hún að grunnstoðir Bandaríkjanna væru í húfi og ekki væri hægt að leyfa erlendum aðilum né öðrum að stela atkvæðum af Trump og öðrum Repúblikönum.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa haldið því fram og haft eftir heimildarmönnum sínum að markmið Trumps sé ekki að snúa við kosningunum, þó hann yrði sáttur við það. Heldur sé það að tryggja áframhaldandi áhrif hans meðal hægri sinnaðra kjósenda í Bandaríkjunum og ítök hans í Repúblikanaflokknum.

Hann vilji einnig grafa undan Biden áður en hann sest að í Hvíta húsinu í janúar.

Þessi viðleitni Trumps hefur þegar vakið áhyggjur meðal háttsettra Repúblikana og hafa þeir sérstakar áhyggjur af ítrekuðum árásum forsetans fráfarandi á ríkisstjóra Georgíu og Ohio. Þeir eru báðir Repúblikanar og horfa fram á kosningar árið 2022.

Repúblikanar óttast að Trump muni nota áhrif sín til að hefna sín á þeim sem hann telur vera óvini sína og troða sér inn í kosningabaráttu annarra Repbúlikana, samkvæmt heimildum Politico.

Trump nýtur gífurlegra vinsælda meðal helstu kjósenda Repúblikanaflokksins og þar á meðal þeirra sem taka þátt í forvölum flokksins. Það hefur ítrekað sýnt sig að þeir frambjóðendur flokksins sem Trump líkar ekki við hafa átt í vandræðum í forvölum fyrir kosningar.


Tengdar fréttir

Telja eftir­lits­menn Trump hindra endur­talningu í Wisconsin

Yfirmenn kjörstjórnar í Wisconsin sökuðu eftirlitsmenn á vegum framboðs Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, um að reyna að hindra endurtalningu atkvæða úr forsetakosningunum þar í gær. Framboðið fór sjálft fram á endurtalninguna.

Fordæma aðfarir Trump sem „ólýðræðislegar“

Tveir öldungadeildarþingmenn úr Repúblikanaflokki Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, gagnrýna harðlega „ólýðræðislegar“ tilraunir hans til þess að snúa við úrslitum forsetakosninganna sem hann tapaði.

Segir Repúblikana þrýsta á sig til að útiloka lögleg atkvæði í Georgíu

Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu í Bandaríkjunum, segir að aðrir Repúblikanar hafi beitt hann miklum þrýstingi að undanförnu. Markmiðið sé að láta hann finna leiðir til að útiloka lögleg atkvæði frá talningu með því markmiði að snúa við naumu tapi Donald Trumps, forseta, í ríkinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.