Erlent

Em­bættis­mönnum hótað á meðan repúblikanar reyna að fá úr­slitum kosninganna breytt

Kjartan Kjartansson skrifar
Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Trump, fer nú fyrir tilraunum forsetans til þess að fá kosningaúrslitunum hnekkt. Giuliani er sagður í samstarfi við Steve Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafa Trump í Hvíta húsinu, sem var ákærður fyrir fjársvik fyrr á þessu ári.
Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Trump, fer nú fyrir tilraunum forsetans til þess að fá kosningaúrslitunum hnekkt. Giuliani er sagður í samstarfi við Steve Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafa Trump í Hvíta húsinu, sem var ákærður fyrir fjársvik fyrr á þessu ári. AP/John Minchillo

Kjörnir fulltrúar sem annast kosningar og starfsmenn kjörstjórna í nokkrum ríkjum í Bandaríkjunum hafa fengið hótanir um ofbeldi á meðan Donald Trump, fráfarandi forseti, og margir repúblikanar halda uppi órökstuddum ásökunum um stórfelld kosningasvik. Framboð Trump reynir enn að fá úrslitum kosninganna breytt í lykilríkjum.

Ekkert lát er á aðgerðum framboðs Trump og Repúblikanaflokksins til þess að reyna að snúa við úrslitum forsetakosninganna. Framboðið bað dómara í Pennsylvaníu um að lýsa Trump sigurvegara þar þrátt fyrir að hann hefði fengið minnihluta atkvæða og í Michigan vilja repúblikanar draga til baka staðfestingu sína á úrslitum í fjölmennustu sýslu ríkisins.

Joe Biden fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum sem fóru fram í Bandaríkjunum 3. nóvember. Talning atkvæða tók víða lengri tíma í ár en í fyrri kosningum vegna gríðarlegs magns póstatkvæða sem fjölmargir kjósendur notuðu til að forðast smithættu í kórónuveirufaraldrinum. Trump forseti og margir repúblikanar hafa neitað að viðurkenna úrslitin og haldið fram órökstuddum ásökunum um að stórfelld kosningasvik hafi kostað hann sigurinn.

Framboð Trump hefur höfðað fjölda málsókna í lykilríkjum en án nokkurs raunverulegs árangurs til þessa. Á sunnudag fjaraði verulega undan málsókn framboðsins í Pennsylvaníu, ríkinu sem kom Biden yfir marklínuna í kjörmannaráðinu sem kýs forseta, þegar það dró til baka ásakanir sínar um að galli hafi verið á talningu hundruð þúsunda atkvæða og því bæri ekki að staðfesta úrslitin.

Endurtalning atkvæða fer nú fram í Georgíu þar sem Biden vann nauman sigur á Trump. Yfirmenn kosninganna þar segja nær öruggt að úrslitin standi eftir endurtalninguna.AP/Brynn Anderson

Vilja að þingmenn repúblikana velji kjörmennina

Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Trump sem stýrir nú málsóknum til að fá kosningaúrslitunum hnekkt, lagði fram nýja kröfugerð fyrir umdæmisdómstól í Pennsylvaníu í gær. Hann vill að dómari lýsi Trump sigurvegara og að ríkisþing Pennsylvaníu, þar sem repúblikanar hafa meirihluta, ætti að velja kjörmenn ríkisins í stað kjósenda. Biden fékk um 82.000 atkvæðum fleiri en Trump í ríkinu.

Í greinargerðinni segir að úrslit forsetakosninganna séu „gölluð“ og því eigi val kjörmanna að fara til ríkisþingsins. Giuliani vill einnig taka aftur upp ásökunina sem framboðið lét niður falla á sunnudag um að eftirlitsmönnum Repúblikanaflokksins hafi verið meinaður aðgangur að talningu póstatkvæða. Yfirmenn kjörstjórna hafa hafnað þeim fullyrðingum.

Reuters-fréttastofan segir að dómarinn í málinu hafi lýst miklum efasemdum þegar málið var tekið fyrir á þriðjudag. Þrátt fyrir fullyrðingar um annað hefur framboð Trump ekki lagt fram gögn sem benda til þess að nægilega mörg atkvæði ættu að teljast ógild til að snúa við úrslitunum í Pennsylvaníu.

Jafnvel þó að Trump yrði lýstur sigurvegari í Pennsylvaníu dygði það ekki til að breyta úrslitum forsetakosninganna sjálfra þar sem Biden vann einnig sigur í öðrum lykilríkjum eins og Georgíu, Arizona, Nevada, Michigan og Wisconsin.

Vildu draga til baka staðfestingu á úrslitunum

Enn frekari vendingar urðu í Michigan, öðru ríki sem Biden hrósaði sigri í, eftir að opinber talningarnefnd í Wayne-sýslu samþykkti að staðfesta úrslit forsetakosninganna þar eftir dúk og disk.

Fulltrúar repúblikana neituðu í fyrstu að greiða atkvæði með staðfestingu úrslitanna en slíkt væri alla jafna aðeins formsatriði. Eftir að fréttir af hörðum viðbrögðum gegn ákvörðun repúblikana bárust drógu þeir í land og féllust á að staðfesta úrslitin gegn því að innanríkisráðherra Michigan léti fara fram úttekt á úrslitum kosninganna í heild.

Í gærkvöldi vatt oddviti repúblikana í nefndinni aftur kvæði sínu og kross og sagðist nú vilja „afturkalla“ atkvæði sitt um að staðfesta úrslitin. Repúblikanarnir vildu þá halda því fram að þeim hafi verið „þröngvað“ til að samþykkja staðfestingu úrslitanna og sökuðu demókrata um að uppfylla ekki loforð um að láta fara yfir kosningaúrslitin. Oddviti demókrata í nefndinni sagði atkvæðagreiðsluna bindandi.

Lýsa hótunum og þrýstingi

Málsóknir halda enn áfram í Arizona, Georgíu, Nevada og Wisconsin. Í síðastnefnda ríkinu krefjast repúblikanar endurtalningar í tveimur fjölmennustu sýslunum. Framboð Trump sendi kjörstjórn þar þrjár milljónir dollara til að fjármagna slíka endurtalningu.

Æðstu yfirmenn kosninga úr báðum flokkum og starfsmenn kjörstjórna hafa lýst því að þeir hafi fengið hótanir um ofbeldi í því umróti sem Trump forseti hefur skapað með ásökunum sínum um kosningasvik, að sögn New York Times.

Katie Hobbs, innanríkisráðherra Arizona og demókrati, sagði í yfirlýsingu í gær að hún og fjölskylda hennar hefðu fengið hótanir eftir að Biden var lýstur sigurvegari þar. Hvatti hún repúblikana til að hætta að dreifa fölskum upplýsingum um kosningarnar.

„Orð þeirra og athafnir hafa afleiðingar,“ sagði Hobbs.

Í Georgíu, sem Biden vann naumlega, sagði Brad Raffensperger, innanríkisráðherra og repúblikani, að hann hefði fengið ógnandi skilaboð. Þá hafi hann upplifað þrýsting frá öðrum repúblikönum, þar á meðal öldungadeildarþingmanninum Lindsey Graham, um að finna leiðir til að ógilda atkvæði. Endurtalning atkvæða fer nú fram í Georgíu en Raffensperger hefur sagt ólíklegt að hún breyti sigri Biden þar.

Framboð Trump hefur haldið uppi ýmsum ásökunum um að eftirlitsmenn þess hafi ekki fengið nægilegan aðgang að talningu atkvæða eða að misfellur hafi verið á framkvæmd kosninganna. Þær ásakanir hafa dagað uppi fyrir dómstólum sem hafa ekki talið þær trúverðugar til þessa.AP/Brynn Anderson

Grugga vatnið til að undirbúa framboð eftir fjögur ár

Washingon Post segir að Trump reyni nú ekki lengur að fá nægilega mörg atkvæði úrskurðuð ógild til þess að snúa við úrslitum kosninganna í lykilríkjum. Þess í stað reyni hann að tefja staðfestingu úrslita til þess að vefengja kosningasigur Biden.

Líkt og þeir hafa krafist í Pennsylvaníu vonast Trump og Giuliani til þess að koma því til leiðar að ríkisþing þar sem repúblikanar ráða ríkjum velji kjörmenn ríkis í stað kjósenda. Blaðið segir þau áform þó ómöguleg. Lög í Pennsylvaníu banna það og í Wisconsin gera lög ekki ráð fyrir að ríkisþingmenn komi nálægt vali á kjörmönnum. Í öðrum ríkjum segir það engan áhuga til staðar fyrir því að ríkisþing skipti sér af vali kjörmanna.

Þá eru ríkisstjórar Pennsylvaníu og Wisconsin demókratar sem myndu örugglega neita að staðfesta val repúblikana á ríkisþingunum þar á kjörmönnum fyrir Trump.

Endanlegt markmið Trump sé því ekki að ná endurkjöri með þessum leiðum heldur frekar að sá fræjum efasemda um kjör Biden á meðal hörðustu stuðningsmanna sinna og halda þannig lífinu í mögulegu forsetaframboði árið 2024.

Það virðist bera töluverðan árangur. Í skoðanakönnun Reuters sagðist um helmingur repúblikana telja að svindlað hefði verið á Trump í kosningunum. Könnun Monmouth-háskóla sýndi enn hærra hlutfall: 77% stuðningsmanna Trump töldu Biden hafa sigrað með svikum.


Tengdar fréttir

Er sagður hafa krafið Trump um 2,7 milljónir á dag

Rudolph W. Giuliani, sem hefur leitt tilraunir Donald Trump Bandaríkjaforseta til að fá úrslitum forsetakosninganna snúið, fór fram á að fá greitt fyrir sem samsvarar 2,7 milljónum króna á dag.

Segir Repúblikana þrýsta á sig til að útiloka lögleg atkvæði í Georgíu

Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíu í Bandaríkjunum, segir að aðrir Repúblikanar hafi beitt hann miklum þrýstingi að undanförnu. Markmiðið sé að láta hann finna leiðir til að útiloka lögleg atkvæði frá talningu með því markmiði að snúa við naumu tapi Donald Trumps, forseta, í ríkinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.