Íslenski boltinn

„Lít á næsta tímabil sem möguleika á að njóta þess að spila aftur“

Ísak Hallmundarson skrifar

Helgi Valur Daníelsson sem verður fertugur næsta sumar meiddist alvarlega í leik gegn Gróttu í Pepsi Max deildinni nú í sumar og margir héldu að ferillinn væri á enda. Svo var aldeilis ekki.

„Það var fyrst og fremst bara svekkelsi að missa af öllu tímabilinu í ár. Eftir að hafa gengið í gegnum langan vetur og vor með allt sem var í gangi var ég bara ótrúlega spenntur fyrir sumrinu. Það var gaman að spila síðasta sumar og mér fannst liðið á réttri leið.

Mér finnst leiðinlegt að taka ekki eins mikinn þátt og ég gat í sumar þannig ég lít á næsta tímabil sem möguleika á að njóta þess að spila aftur,“ sagði Helgi brattur.

Helgi Valur kom heim 2018 eftir farsælan feril í atvinnumennsku og á 33 A-landsleiki að baki. Hann hafði ákveðið að leggja skóna á hilluna á þeim tímapunkti en ákvað að taka slaginn með Fylki.

„Ég var í svona tvö ár búinn að pæla í því að hætta en það er erfitt þegar maður er búinn að spila fótbolta allt sitt líf að fara í eitthvað allt annað,“ sagði Helgi, en allt viðtalið má horfa á í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×