Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur farið mikinn á Twitter undanfarna daga í kjölfar kosninganna vestanhafs. Í dag birti hann enn eina færsluna um meint kosningasvik og virðist viðurkenna sigur Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins, á sama tíma.
„Hann vann því kosningasvindl átti sér stað,“ skrifar forsetinn í færslunni en fjölmiðlar greina nú frá því að þetta sé í fyrsta sinn sem hann viðurkennir sigur mótframbjóðanda síns, þó það sé ekki með afgerandi hætti. Enn vill Trump meina að brögð hafi verið í tafli.
He won because the Election was Rigged. NO VOTE WATCHERS OR OBSERVERS allowed, vote tabulated by a Radical Left privately owned company, Dominion, with a bad reputation & bum equipment that couldn’t even qualify for Texas (which I won by a lot!), the Fake & Silent Media, & more! https://t.co/Exb3C1mAPg
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 15, 2020
Joe Biden hefur nú tryggt sér 306 kjörmenn sem er meira en nóg til að tryggja sigurinn. 270 kjörmenn duga til þess að meirihluta sé náð.
Trump virtist þó draga í land eftir að fjölmiðlar bentu á að hann væri óbeint að viðurkenna sigur Biden. „Ég viðurkenni EKKERT,“ skrifaði hann í færslu stuttu síðar.
He only won in the eyes of the FAKE NEWS MEDIA. I concede NOTHING! We have a long way to go. This was a RIGGED ELECTION!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 15, 2020
Trump hefur verið tregur til að viðurkenna úrslit kosninganna og hefur höfðað fjölmörg dómsmál í ýmsum ríkjum vegna þeirra. Sagði hann fyrirtæki í eigu „róttæka vinstrisins“ hafa séð um talningu og fullyrti að eftirlitsaðilar hefðu ekki fengið að fylgjast með.
Opinber eftirlitsnefnd með kosningum í Bandaríkjunum sagði þó forsetakosningarnar hafa verið „þær öruggustu í sögu Bandaríkjanna“ og höfnuðu öllum fullyrðingum Trump um kosningasvindl. Engin sönnunargögn bentu til þess að fullyrðingar hans ættu við rök að styðjast.