Erlent

Vísuðu dönskum öfga­mönnum sem ætluðu að brenna Kóraninn úr landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Danirnir ætluðu að brenna Kóraninn í Molenbeek-hverfinu í Brussel. Stór hluti íbúar þar er af marokkóskum ættum.
Danirnir ætluðu að brenna Kóraninn í Molenbeek-hverfinu í Brussel. Stór hluti íbúar þar er af marokkóskum ættum. Vísir/EPA

Belgísk yfirvöld vísuðu fimm dönskum hægriöfgamönnum úr landi í dag. Þeir eru taldir hafa ætlað að brenna Kóran, helgirit múslima, í hverfi höfuðborgarinnar Brussel þar sem meirihluti íbúa eru múslimar. Mennirnir eru sagðir hafa valdið alvarlegri ógn við allsherjarreglu.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að fimmmenningarnir séu samverkamenn danska hægriöfgaleiðtogans Rasmusar Paludan. Hann er alræmdur fyrir að brenna Kóraninn í Danmörku, stundum vöfðum inn í beikon. Paludan var sjálfum vísað frá Frakklandi þar sem hann ætlaði að brenna Kóran í París í gær.

Mennirnir fimm eru taldir hafa ætlað að brenna helgiritið í Molenbeek-Saint-Jean, hverfi þar sem stór hluti íbúa er af marokkóskum ættum. Belgískir lögregluþjónar stöðvuðu för þeirra og vísuðu svo máli þeirra til saksóknara.

Sammy Mahdi, aðstoðarutanríkisráðherra, segir að mennirnir hafi verið beðnir um að yfirgefa land strax og þeir hafi orðið við því. Þeim var vísað tafarlaust úr landi vegna þess að þeir voru taldir ógna allsherjarreglu í Belgíu.

„Í okkar samfélagi, sem er þegar mjög pólitískt skautað, þurfum við ekki á því að halda að fólk komi og ali á hatri,“ sagði Mahdi sem sjálfur er sonur írasks flóttamanns.

Ólga hefur ríkt í nokkrum Evrópulöndum eftir hrinu hryðjuverka í Frakklandi og Austurríki síðasta mánuðinn. Paludan er þekktur kynþáttahatari í Danmörku og sat meðal annars í fangelsi í mánuð fyrr á þessu ári fyrir að birta hatursáróður gegn múslimum á samfélagsmiðlasíðum öfgasamtaka sinna.

Til óeirða kom þegar aðdáendur Paludan brenndu Kóran í Malmö í Svíþjóð í ágúst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×