Erlent

Úkraínu­for­seti fluttur á sjúkra­hús vegna kórónu­veiru­smits

Atli Ísleifsson skrifar
Volodymyr Zelenskíj hefur gegnt embætti forseta Úkraínu síðan í maí 2019.
Volodymyr Zelenskíj hefur gegnt embætti forseta Úkraínu síðan í maí 2019. Getty

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti hefur verið lagður inn á sjúkrahús eftir að hafa smitast af kórónuveirunni sem veldur Covid-19 fyrr í vikunni.

Frá þessu segir í tilkynningu frá forsetaskrifstofu landsins. „Hann fór fyrst heim, en við ákváðum að flytja hann á Feofania-sjúkrahúsið í þeim tilgangi að halda honum alveg einangruðum þannig að hann myndi ekki smita neinn,“ sagði talskona forsetans að því er fram kemur í frétt Reuters.

Hún segir aðstæður vera betri fyrir sjúklinga á sjúkrahúsinu. Ástand forsetans sé þó ekki alvarlegt.

Zelenskíj greindi frá því á mánudaginn að hann hafi greinst með Covid-19. Auk forsetans greindust fjármálaráðherra Úkraínu, varnarmálaráðherrann og æðsti ráðgjafi forsetans einnig með veiruna.

Fjölda innanlandssmita í Úkraínu tók að fjölga mikið í lok september og hélst hár allan októbermánuð og það sem af er nóvember. Ákvað ríkisstjórnin í kjölfarið að herða samkomutakmarkanir í landinu.

Alls hafa um 500 þúsund manns greinst með Covid-19 í Úkraínu frá upphafi faraldursins. Dauðsföll sem rakin eru til sjúkdómsins eru nú rúmlega níu þúsund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×