Erlent

Fleiri en 50.000 nú látnir í Bretlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Bretland er á meðal þeirra ríkja sem hafa orðið einna verst út í kórónuveirufaraldrinum til þessa.
Bretland er á meðal þeirra ríkja sem hafa orðið einna verst út í kórónuveirufaraldrinum til þessa. Vísir/EPA

Tala látinna í kórónuveirufaraldrinum í Bretlandi fór yfir 50.000 manns í dag. Bretland varð þannig fyrsta Evrópulandið sem nær þeim neikvæða áfanga. Hundruð manns deyja nú af völdum veirunnar þar á degi hverjum.

Samkvæmt nýjustu tölum yfirvalda greindust 22.950 manns smitaðir af veirunni í dag og 595 létust. Þar með bættist Bretland í hóp fjögurra annarra ríkja, Bandaríkjanna, Brasilíu, Indlands og Mexíkó, þar sem fleiri en 50.000 manns hafa látist, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Tala látinna miðast við þá sem létust innan við 28 dögum eftir að þeir greindust smitaðir af Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveirunnar veldur. Samkvæmt öðrum mælikvörðum, til dæmis þegar minnst er á Covid-19 á dánarvottorði eða þegar svonefnd umframdauðsföll eru metin, hefur mannskaðinn orðið enn meiri.

Boris Johnson, forsætisráðherra, sagði að tölurnar sýndu að þjóðin væri ekki laus úr viðjum faraldursins í bili. Ríkisstjórn hans greip nýlega til einna hörðustu aðgerða sinna til þessa eftir að vöxtur hljóp í faraldurinn. Hann hefur varað við því að dauðsföll geti orðið tvöfalt fleiri í vetur en í fyrstu bylgju faraldursins í vor.

Níu af hverjum tíu þeirra látnu í Bretland eru fólk 65 ára eða eldra. Faraldurinn hefur einnig komið harðar niður á fátækari svæðum landsins og þjóðernisminnihlutahópum en öðrum. Dauðsföll af völdum annarra kvilla hefur einnig fjölgað vegna álags á heilbrigðiskerfið.

Fjögurra vikna samkomutakmarkanir tóku gildi á Englandi á fimmtudag og gilda til 2. desember. Johnson segist vonast til þess að þær aðgerðir dugi til þess að hefta útbreiðslu veirunnar frekar þannig að Bretar geti átt eins hefðbundin jól og hægt er.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×