Erlent

Ljónum í Keníu fjölgar á ný

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Maasai-fólk á Amboseli-svæðinu hefur lengi veitt ljónin en er nú orðið að helstu verndurum þeirra.
Maasai-fólk á Amboseli-svæðinu hefur lengi veitt ljónin en er nú orðið að helstu verndurum þeirra. EPA/Dai Kurokawa

Svo virðist sem ljónastofninn í Keníu sé að stækka eftir að hafa lengi verið í viðkvæmri stöðu. Sérfræðingar höfðu spáð útrýmingu dýranna fyrir árið 2050 en einungis tvö þúsund ljón eru eftir í landinu.

Maasai-fólk á Amboseli-svæðinu hefur lengi veitt ljónin en er nú orðið að helstu verndurum þeirra. Stofninn hefur verið á hraðri niðurleið undanfarin ár en á þessu ári virðist breyting hafa orðið þar á. Fjöldi unga hefur fæðst og segjast forsprakkar samtakanna Lion Guardians ánægðir með árangurinn

Stephanie Dolrery hjá Lion Guardians sagði við AP að árið 2004 hafi verið um eitt ljón á hverja 100 ferkílómetra á svæðinu. Nú séu þau um sex eða sjö. Starf Maasai-fólksins hafi skilað miklum árangri.

„Þetta snýst um að hvetja veiðimennina, sem hafa lengi veitt ljónin, til þess að rekja þau og fylgja þeim. Það er ekki auðvelt verk, enda getur verið afskaplega ógnvænlegt þegar dýrið stekkur á þig. Maður þarf að vera sterkur til þess að vinna þetta starf og Maasai-fólkið er best í því,“ sagði Dolrery.

Eric Ole Kesoi, einn forsprakka verndaranna, sagði að á árum áður hafi verið alsiða að drepa hvert einasta ljón. Nú sé hann hins vegar orðinn einn sá færasti í að vernda þau.

„Það var strax ljóst í upphafi að ég var afar fær í að elta ljónin. Þess vegna hef ég verið viðriðin þessa vinnu og nýti hæfileika mína til þess að vernda dýrin.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×