Erlent

Yfirmaður WHO hlakkar til samstarfsins við stjórn Biden og Harris

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO. EPA/SALVATORE DI NOLFI

Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, segist hlakka til að starfa náið með ríkisstjórn Joe Biden, kjörins forseta Bandaríkjanna. Þá fagnaði hann umbótum á starfsemi stofnunarinnar sem boðaðar hafa verið af Frakklandi, Þýskalandi og Evrópusambandinu.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, sagði á ávarpi sem hann flutti fyrir heilbrigðisráðherra á fundi WHO í dag að fjármögnun stofnunarinnar þurfi að verða sveigjanlegri og fyrirsjáanleg til þess að jafna mismun sem nú sé til staðar á væntingum um það sem stofnunin getur gert og hvað hún getur í raun gert.

„Við eigum enn langt í land en við erum á réttri braut,“ sagði Tedros á fundinum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað fyrr á þessu ári að frysta fé sem renna átti til stofnunarinnar og hóf ferli við að draga Bandaríkin úr stofnuninni fyrir næsta sumar. Hann sakaði stofnunina um að vera hliðholl Kína í viðbrögðum hennar við kórónuveirufaraldrinum sem Tedros hefur neitað.

Joe Biden, sem kjörinn var forseti Bandaríkjanna í forsetakosningunum vestanhafs nú um helgina, lýsti því yfir á meðan á kosningabaráttunni stóð að hann myndi snúa við ákvörðun Trumps um að segja Bandaríkin úr WHO á fyrsta degi sínum í forsetastóli. Hann kallaði í dag saman hóp sérfræðinga alls staðar að úr Bandaríkjunum sem eiga að sitja í kórónuveiruteymi þegar hann tekur við embætti.

Tedros óskaði Biden til hamingju með sigurinn og Kamölu Harris, verðandi varaforseta, sömuleiðis.

Nú hafa rúmlega 10 milljónir Bandaríkjamanna verið greindir smitaðir af veirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum samkvæmt nýjum tölum frá Johns Hopkins háskólanum. Þá hafa tæplega 238 þúsund látist af völdum sjúkdómsins þar í landi. Undanfarin vika hefur verið Bandaríkjamönnum erfið hvað veiruna varðar en í þrjá daga í röð var metfjöldi í kórónuveirusmitum þar í landi.


Tengdar fréttir

Leiðtogar heimsins sagðir hafa brugðist vegna Covid-19

Þjóðarleiðtogar heimsins brugðust varðandi undirbúning fyrir mögulegan heimsfaraldur. Ekki var hlustað á viðvaranir og fjárfestingar og pólitískur áhugi á undirbúningi var ekki nægjanlegur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×