Íslenski boltinn

Þetta voru bestu mennirnir í sumar að mati Pepsi Max Stúkunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Bendiktsson og sérfræðingar hans eru búnir að gera upp tímabilið í Pepsi Max deild karla 2020.
Guðmundur Bendiktsson og sérfræðingar hans eru búnir að gera upp tímabilið í Pepsi Max deild karla 2020. Skjámynd/S2 Sport

Pepsi Max Stúkan gerði upp tímabilið í Pepsi Max deild karla um helgina og valdi þá sem sköruðu fram úr í sumar.

Guðmundur Benediktsson og sérfræðingar hans völdu besta leikmann Pepsi Max deildar karla, besta unga leikmann Pepsi Max deildar karla, Besta markið í deildinni í sumar og svo ellefu manna úrvalslið deildarinnar en valið var kynnt í uppgjörsþætti Stúkunnar um helgina.

Pepsi Max Stúkan valdi Steven Lennon, markakóng Pepsi Max deildar karla, besta leikmann deildarinnar í sumar. Steven Lennon skoraði 17 mörk í 18 leikjum í sumar og átti alls þátt í tuttugu mörkum FH-liðsins (17 mörk og 3 stoðsendingar).

„Það virðist vera sem svo að allir sem hafa skoðun séu sammála um þetta," sagði Guðmundur Benediktsson um valið á Steven Lennon sem hefur fengið verðlaunin á flestum stöðum.

Pepsi Max Stúkan valdi Valdimar Þór Ingimarsson besta unga leikmann Pepsi Max deildar karla í sumar en Valdimar var með átta mörk og fimm stoðsendingar í fjórtán leikjum með Fylkisliðinu.

Besta mark sumarsins að mati Pepsi Max Stúkunnar, Origo mark ársins, var mark Blikans Gísla Eyjólfssonar á móti Víkingum í Víkinni. Það voru áhorfendur sem fengu að velja í netkosningu.

Hér fyrir neðan má sjá Guðmund fara yfir uppgjörsverðlaun Pepsi Max Stúkunnar í ár með þeim Sigurvin Ólafssyni og Reyni Leóssyni. Þar má einnig sjá lið ársins hjá Pepsi Max Stúkunni.

Klippa: Pepsi Max Stúkan: Besti leikmaður ársins
Klippa: Pepsi Max Stúkan: Besti ungi leikmaður ársins
Klippa: Pepsi Max Stúkan: Lið ársins í Pepsi Max deild karla
Klippa: Pepsi Max Stúkan: Origo mark ársins



Fleiri fréttir

Sjá meira


×