Bruno allt í öllu þegar Man Utd lagði Everton

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Bruno Fernandes
Bruno Fernandes vísir/Getty

Manchester United heimsótti Everton í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði heimamanna.

Það blés ekki byrlega fyrir gestina því Brasilíumaðurinn Bernard kom Everton yfir með skoti utan vítateigs á 19.mínútu. Vægast sagt vondur varnarleikur hjá Victor Lindelöf og Aaron Wan-Bissaka í aðdraganda marksins.

Gestirnir voru hins vegar fljótir að svara því strax á 25.mínútu jafnaði Bruno Fernandes metin með skalla eftir að Luke Shaw fékk allan heimsins tíma til að athafna sig á vinstri kantinum.

Portúgalski miðjumaðurinn kom Manchester United í forysta á 32.mínútu þegar hann skoraði með skoti sem átti líklega að vera fyrirgjöf á Marcus Rashford. Enski sóknarmaðurinn náði ekki að skalla boltann sem fór í kjölfarið í stöng og inn.

Gylfa var skipt af velli fyrir Alex Iwobi á 67.mínútu og reyndu Everton allt hvað þeir gátu til að jafna metin.

Heimamenn voru með alla sína menn frammi í uppbótartíma þegar Harry Maguire vann boltann og Man Utd geystist í skyndisókn sem endaði með því að Edinson Cavani skoraði eftir sendingu frá Bruno Fernandes. Fyrsta mark Úrúgvæans í búningi Manchester United.

Lokatölur 1-3 fyrir Man Utd og kærkominn sigur fyrir Ole Gunnar Solskjær.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira