Enski boltinn

Southgate hughreysti Pickford eftir leikinn gegn Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tæklingin fræga.
Tæklingin fræga. getty/John Powell

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, segist hafa hringt í Jordan Pickford eftir leik Everton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði til að sýna markverðinum stuðning.

Pickford var mikið milli tannanna á fólki eftir háskalega tæklingu á Virgil van Dijk, varnarmanni Liverpool. Pickford slapp við refsingu en Van Dijk slapp ekki jafn vel. Hann sleit krossband í hné og verður vætnanlega frá keppni það sem eftir lifir tímabils.

Pickford var harðlega gagnrýndur fyrir tæklinguna og hann þurfti á endanum að ráða lífverði vegna morðhótana stuðningsmanna Liverpool.

„Þetta var stórt mál. Mér fannst rétt í stöðunni að heyra í honum og spyrja hvernig hann hefði það,“ sagði Southgate.

Hann segir að Pickford sé enn fyrsti markvörður enska landsliðsins þrátt fyrir misjafna frammistöðu á þessu tímabili.

„Hann hefur verðskuldað traustið sem ég hef sýnt honum. Hann hefur verið frábær fyrir okkur og þetta er ekki erfið ákvörðun fyrir mig. Það er samkeppni í liðinu en það er enginn sem ógnar stöðu hans alvarlega.“

Pickford sat á bekknum þegar Everton tapaði fyrir Newcastle United, 2-1, um síðustu helgi. Hann verður væntnalega milli stanganna hjá Everton þegar liðið fær Manchester United í heimsókn í hádeginu á morgun.


Tengdar fréttir

Foden með á ný gegn Íslandi

Phil Foden er á ný í landsliðshópi Englands eftir að hafa verið sendur heim vegna brota á sóttvarnareglum í Reykjavík í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×