Erlent

Siguryfirlýsingar Trumps í kvöld hafa enga þýðingu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt forsetafrúnni Melaniu Trump á kosningavöku í Hvíta húsinu í gærkvöldi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ásamt forsetafrúnni Melaniu Trump á kosningavöku í Hvíta húsinu í gærkvöldi. Vísir/getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti sig í kvöld sigurvegara í Pennsylvaníu, Georgíu, Norður-Karólínu og Michigan. Endanleg úrslit bandarísku forsetakosninganna liggja þó ekki fyrir í neinu þessara ríkja, auk þess sem helstu fjölmiðlar vestanhafs hafa lýst Joe Biden, mótframbjóðanda Trumps, sigurvegara í síðastnefnda ríkinu.

Sérfræðingar árétta einnig að forseti geti ekki eignað sér ríki á þennan hátt og það hafi enga þýðingu að hann lýsi sig sigurvegara í ríkjunum.

Trump birti yfirlýsingar sínar á Twitter í kvöld og hélt því þar fram að í Pennsylvaníu, Georgíu og Norður-Karólínu hefði hann „stórt“ forskot á mótframbjóðanda sinn. Auk þess kvaðst hann lýsa sig sigurvegara í Michigan og ýjaði enn og aftur að misferli við talningu atkvæða í ríkinu.

Enginn fótur er þó fyrir slíku. Þá merkti Twitter tíst forsetans þar að lútandi sem umdeilt eða misvísandi.

Líkt og áður segir hafa sérfræðingar bent á að það hafi að sjálfsögðu enga þýðingu að forsetinn skuli lýsa sjálfan sig sigurvegara í umræddum ríkjum. Það gerir til að mynda Ellen L. Weintraub, einn nefndarmanna Federal Election Commission, í kvöld.

Trump lýsti strax yfir sigri í kosningunum í ávarpi í nótt. Þar hélt hann því fram að hann hefði unnið Georgíu, sem er ekki rétt, auk þess sem hann væri að vinna í Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin. Helstu fjölmiðlar hafa nú lýst Joe Biden sigurvegara í síðastnefndu tveimur ríkjunum.

Trump er enn með forskot í Pennsylvaníu en Biden hefur unnið á það forskot í dag. Úrslit í ríkinu munu þó líklega ekki liggja fyrir fyrr en á föstudag í fyrsta lagi.

Þá gæti dregið rækilega til tíðinda í nótt. Nate Cohn, kosningaspekingur hjá New York Times, sagði fyrr í kvöld að nýjar tölur muni berast frá Nevada áður en dagur er úti vestanhafs. Áður höfðu kosningayfirvöld þar sagt að engar nýjar upplýsingar yrðu birtar fyrr en á morgun. Þetta þýðir að Biden, sem er talinn líklegur til sigurs í ríkinu, gæti fræðilega orðið yfirlýstur sigurvegari forsetakosninganna áður en degi hallar í Bandaríkjunum.

Uppfært klukkan 00:12:

Yfirvöld í Nevada hafa dregið til baka fyrri yfirlýsingar um að nýrra talna væri að vænta í ríkinu fyrir dagslok vestanhafs. Úrslit kosninganna munu því ekki ráðast fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Áfram má fylgjast með helstu vendingum forsetakosninganna í Bandaríkjunum í vaktinni á Vísi.


Tengdar fréttir

„Lýðræðið er hjartsláttur þessarar þjóðar“

Joe Biden, forsetaefni Demókrataflokksins, ávarpaði bandarísku þjóðina rétt í þessu og sagðist þess viss að þegar talningu atkvæða yrði lokið stæði hann uppi sem sigurvegari. „Kæru landar. Í gær sannaðist enn og aftur að lýðræðið er hjartsláttur þessarar þjóðar,“ sagði Biden m.a.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×