Innlent

Skýra þarf reglur um fjölda í verslunum

Birgir Olgeirsson skrifar
visir-img
Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra, hefur sent skilaboð til yfirmanna í lögreglunni að fjöldatakmarkanir í verslunum og þjónustu miðast við fjölda viðskiptavina.

Greint hefur verið frá því að lögreglu hafi borist tilkynningar um að verslanir fari ekki eftir reglum um fjöldatakmarkanir og grímuskyldu. 

Víðir segir í skilaboðum sínum til yfirmanna í lögreglunni að ekki hafi verið kveðið á með skýrum hætti um fjölda í verslunum í reglugerð heilbrigðisráðherra um fjöldatakmarkanir.

Áhöld voru um hvort að fjöldatakmarkanir í verslunum miðuðust við samanlagðan fjölda starfsmanna og viðskiptavina eða þá einungis viðskiptavina.

Hið rétta er, samkvæmt Víði, að fjöldatakmarkanir í verslunum og þjónustu miðast við viðskiptavini.

„Það er afar óheppilegt þegar svona stjórnvaldstilmæli eru jafn íþyngjandi og þessi eru, að þau séu ekki þannig úr garði gerð að það sé hafið yfir vafa hvernig á að fylgja þeim, bæði fyrir þá sem eiga að framfylgja þeim og þá sem eiga að fara eftir þeim,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar- og þjónustu.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. 

Andrés segir að það sé því skiljanlegt að lögreglumenn hafi gagnrýnt verslunarmenn í fjölmiðlum fyrir að fara ekki eftir reglum um fjöldatakmarkanir og grímuskyldu í verslunum, því reglurnar hafi ekki verið skýrar.

„Við gagnrýnum það á móti að stjórnvaldsfyrirmælin, sem þessi reglugerð er, hafi ekki verið nægjanleg skýr og ákvæði um grímuskylduna hafi ekki verið nógu vel kynnt af hálfu stjórnvalda. Við sendum út tilkynningu til okkar félagsmanna til að skýra út fyrir þeim eins vel og hægt var hvað í þessu fælist, en til að það sé hægt þurfa fyrirmælin sem við byggjum á að vera skýr og ótvíræð.“

Reglurnar í dag eru þannig að allar samkomur eru takmarkaðar við tíu manns. Hins vegar er lyfja- og matvöruverslunum heimilt að hafa allt að 50 viðskiptavini inni í einu. Aðrar verslanir mega aðeins hafa tíu viðskiptavini inni hjá sér.

Sem þýðir að byggingavöruverslanir mega aðeins hafa tíu viðskiptavini inni hjá sér í einu. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins fellur hins vegar í flokk matvælaverslana því áfengi er skilgreint sem matvæli í lögum. Því mega 50 viðskiptavinir vera inni í verslunum ÁTVR í einu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×