Slæmt gengi Börsunga heima fyrir heldur á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gengur lítið upp hjá Börsungum þessa dagana.
Það gengur lítið upp hjá Börsungum þessa dagana. Juan Manuel Serrano Arce/Getty Images

Það gengur hvorki né rekur hjá spænska stórliðinu Barcelona. Allavega heima fyrir en liðið gerði 1-1 jafntefli við Deportivo Alavés í kvöld. Hefur Barcelona nú leikið fjóra leiki án sigurs í spænsku úrvalsdeildinni.

Luis Rioja kom heimamönnum í Alavés yfir eftir rúman hálftíma. Var það eina mark fyrri hálfleiks en Börsungar nældu sér í þrjú gul spjöld áður en flautað var til hálfleiks. Þau fengu Lionel Messi, Clément Lenglet og Sergio Busquets. 

Ronald Koeman, þjálfari Barcelona, gerði þrefalda skiptingu í hálfleik til að reyna hrista upp í hlutunum. Þegar rúmur klukkutími var liðinn fékk Jota sitt annað gula spjald í liði heimamanna og þar með rautt.

Mínútu síðar jafnaði Antoine Griezmann metin með sínu fyrsta marki á tímabilinu. Staðan orðin 1-1 og gestirnir manni fleiri síðasta hálftíma leiksins.

Börsungum tókst hins vegar ekki að sækja sigurmarkið og lokatölur því 1-1. Jafntefli kvöldsins þýðir að Barcelona er í 12. sæti með átta stig eftir sex leiki, átta stigum á eftir toppliði Real Madrid sem hefur þó leikið einum leik meira.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.