Fótbolti

Sér ekkert því til fyrirstöðu að klára mótið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR.
Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR. Stöð 2

Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, sér ekkert því til fyrirstöðu að klára Íslandsmótið í fótbolta. 

Þetta kemur fram á Mbl.is og vitnar Jónas til að mynda í ummæli Runólfs Pálmasonar, yfirmanns á Covid-göngudeild Landspítalans.

„Það hefur ekkert smit greinst á knattspyrnuvellinum og ekkert hópsmit komið upp. Miðað við þær forsendur er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram,“ sagði Jónas við Mbl.is fyrr í dag.

Bendir hann einnig á að Runólfur hafi sagt að hægt sé að spila hérlendis ef farið sé eftir ströngum sóttvarnareglum. Jónas segir einnig mikilvægt að farið verði eftir sóttvarnareglum, þó þær verði hertar eins og Þórólfur Guðnason – sóttvarnalæknir – hefur staðfest að sé til skoðunar. Það eigi hins vegar ekki að koma í veg fyrir að knattspyrna sé spiluð utandyra.

„Við höfum þurft að undirgangast ýmislegt til að geta klárað Evrópuleiki. Ég held að Ísland sé eitt fjögurra landa þar sem knattspyrna er ekki leyfð. Alls staðar er verið að spila og það er vilji hjá öllum til að halda áfram. Það er bara spurning hversu liðleg stjórnvöld eru,“ sagi Jónas að lokum í viðtali við Mbl.

KR og Stjarnan eru einu lið Pepsi Max deildar karla sem eiga fimm leiki eftir og eru bæði lið í harðri baráttu við Breiðablik - og Fylki - um Evrópusæti. Önnur lið deildarinnar eiga fjóra leiki eftir.

Í Pepsi deild kvenna eru málin aðeins flóknari, þar eiga sjö af tíu liðum aðeins tvo leiki eftir. Tvö lið eiga þrjá leiki eftir en KR - sem situr sem fastast á botni deildarinanr - á fjóra leiki eftir. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.